140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:13]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ástæðan fyrir því að ég spyr er einfaldlega sú að umræðan þessa dagana snýst um að reyna að taka það sem er í biðflokki og flytja það yfir í nýtingarflokk þrátt fyrir að fagleg rök hafi komið fram fyrir því að skoða þurfi suma kostina betur þar.

Hv. þingmaður talaði líka um að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki endilega hvatamaður þess að virkja meira til stóriðju og það er ánægjuleg stefnubreyting ef svo er. Í framhaldi af því langar mig þá að spyrja um viðhorf hv. þingmanns og kannski flokksins, ef sú afstaða er til, til útflutnings á raforku um sæstreng til Evrópu. Nú liggur það beint fyrir að ef af slíku verður mun raforkuverð til heimila og fyrirtækja á Íslandi fjórfaldast eða fimmfaldast vegna Evrópska efnahagssvæðisins og við megum ekki niðurgreiða raforkuverð hingað til lands.

Raforkuútflutningur frá Íslandi til Evrópu er dropi í hafið hvað varðar áhrif á orkunotkun í Evrópu og skiptir þá engu máli en skiptir Íslendinga höfuðmáli. Slíkur útflutningur mun einfaldlega skerða til mikilla muna möguleika á fleiri atvinnutækifærum hér á landi, hvort sem um er að ræða stóriðju eða í öðrum verkefnum. Að mínu viti tel ég að slíkt yrði hið mesta glapræði en ég hef ekki séð koma fram neins staðar afstöðu Sjálfstæðisflokksins eða þingmanna hans til slíkra hugmynda. Gæti hann upplýst okkur um það?