140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að nýta þær auðlindir sem við höfum til að auka verðmætasköpun í landinu. Það var einmitt ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara í þessa spurningu þegar ég sá þær áherslur sem komu fram í landsfundarályktuninni. Þegar þessir flokkar tóku ákvörðun um að mynda ríkisstjórn var það sett sem skilyrði að eitt yrði ekki látið ganga yfir allt í þessu, þ.e. að Norðlingaalda yrði tekin sérstaklega út, og þessi fingraför sem sett voru á aðrar virkjanir, eins og í neðri hluta Þjórsár, gera það að verkum að málið horfir vitanlega töluvert öðruvísi við en lagt var af stað með í upphafi.

Ég ætla ekki að fara neitt í grafgötur með það við hv. þingmann að þegar ákveðið var að fara í þetta ferli voru ekki allir sáttir við það, hvorki úti á landi, í sveitarstjórnum né innan Framsóknarflokksins svo ég taki það bara upp í þessari umræðu, vegna þess að menn töldu að með þessu væri hugsanlega verið að loka á nýtingu á ákveðnum kostum. Til að reyna að skapa sátt og frið beygðu aðilar sig undir það hins vegar að kyngja því sem út úr þessu kæmi, ég ætla bara að orða það þannig. Þar af leiðandi eru það mikil vonbrigði að nú sé búið að opna málið upp á gátt og var í rauninni gert, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, þegar þeir stjórnarflokkar sem nú sitja mynduðu ríkisstjórn með því að setja þetta í stjórnarsáttmálann.

Það sem hefur gerst síðan er að einfaldlega er verið að undirstrika að það er meiri áhersla á að friða eða vernda ákveðin svæði en horfa á þetta mál allt í einhverju jafnvægi. Það er undirstrikað í þeim orðum sem féllu í gær um að þær athugasemdir sem lúta að friðun séu veigameiri en þær sem lúta að nýtingu.