140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að spyrja hv. þingmann aðeins áfram þannig að það sé öruggt að ég hafi skilið þetta rétt. Hann talar um að ákveðnir stjórnarliðar eigi erfitt með að samþykkja þessa áætlun eins og hún er og þá er kannski næsta spurning: Telur þingmaðurinn að ekki sé meiri hluti fyrir þingsályktunartillögunni eins og hún stendur? Segjum að sú samsæriskenning sem heyrist á göngum þingsins sé rétt, að ekki megi ekki hrófla við neinu, en á sama tíma efast þingmaðurinn um að allir stjórnarliðar geti samþykkt þetta eins og það er. Er þingmaðurinn þá að segja að ef til vill sé ekki stjórnarmeirihluti fyrir rammaáætluninni óbreyttri?

Og talandi um stjórnarliða, það vekur líka óneitanlega athygli að þeir eru hvergi sjáanlegir í umræðunni. Hvað segir það okkur? Segir það okkur að svo eindregin sátt sé á milli stjórnarflokkanna að ekkert þurfi að ræða þetta? Þarna liggi stefna ríkisstjórnarinnar klár og kvitt fyrir? Eða sýnir það okkur að menn geti ekki afborið að koma í ræðustól og ræða þetta málefnalega vegna þess að þeir hafi ekki sannfæringu fyrir því? Ég vil kannski fá álit þingmannsins á því. Ég verð að segja það að mér þykir þetta allt saman mjög undarlegt, en ég tek undir með þingmanninum þegar hann rekur það að þessi sérkennilega ríkisstjórn, eins og hann tók til orða, gerir allt til að halda lífi. Það er kannski hennar eina afrek, leyfi ég mér að fullyrða, að halda þessum sundurleita hópi, sem virðist ekki vera sammála um neitt nema kannski eitt atriði sem of langt mál er að fara í hér, saman. Það er eina afrekið.