140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg með stökustu ólíkindum að þegar 17 þingdagar eru eftir skuli menn vera í 1. umr. um hvert stórmálið á eftir öðru. Því miður, eins og hv. þingmaður benti á, hafa þessi vinnubrögð, þessi skortur á verkstjórn, leitt til verulega gallaðrar lagasetningar. Oft eru málin þvinguð í gegn, menn eru látnir standa hér og ræða þau um miðjar nætur og rétt byrjaðir að tjá sig þegar stjórnarliðar eru farnir að hrópa: Málþóf, málþóf, og reyna að fá fjölmiðla til að fjalla um hvað stjórnarandstaðan sé leiðinleg við sig þegar ríkisstjórnin kemur fram með mál rétt fyrir þinglok. Það er náttúrlega ekki nokkur hemja.

Það verður alltaf fleira og fleira í áróðri stjórnarflokkanna frá því fyrir síðustu kosningar sem verður hreinlega fyndið þegar það er borið saman við reynsluna, eins og allt talið um mikilvægi þess að hæstv. núverandi forsætisráðherra taki við verkstjórninni af forvera sínum. Svona er ekki hægt að standa að lagasetningu og þingið, stjórnarandstaðan eingöngu ef ekki vill betur til, verður að segja: Hingað og ekki lengra, og láta ekki bjóða sér þetta loksins þegar við fáum kosningar, sem verður í mesta lagi eftir eitt ár. Ég hef enga trú á því að ef svo illa færi að sama ríkisstjórn héldi áfram eftir kosningar, sem ég geri reyndar ekki ráð fyrir, að það væri bara tveggja ára seinkun. Við höfum nefnilega heyrt þetta svo oft áður: Þetta er bara seinkun um eitt ár, tvö ár, þrjú ár. Hvenær hafa slíkar áætlanir staðist? Aldrei nokkurn tíma. Þess vegna verðum við að fá kosningar og við verðum að skipta um ríkisstjórn. (VigH: Heyr, heyr.)