140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér láðist að svara hv. þingmanni þessari síðustu spurningu, hvort tekið hefði verið eitthvert tillit til umsagnar Ríkisábyrgðasjóðs. Nú hef ég ekki lesið það nákvæmlega saman hvernig þetta hljómar. Auðvitað slær niðurstaðan mann þar sem stendur að eðlileg ávöxtunarkrafa sé áætluð á verkið og aðeins neðar í textanum er vísað til skýrslu IFS Greiningar sem segir að fari vaxtastigið eða raunávöxtunarkrafan yfir 7% fari verkefnið í greiðslufall. Hið augljósa svar er það að ekki er tekið tillit til þess.

Ég tek undir með hv. þingmanni að mér finnst þetta ákveðin prófraun eins og kannski svo mörg önnur mál. Og ég er reyndar orðinn dálítið þreyttur á því, og viðurkenni það fúslega, sem alltaf er sagt: Já, já, við verðum samt að klára þetta mál en svo breytum við bara vinnubrögðunum, ekki núna heldur bara næst. En kjörtímabilið er því miður að verða búið eða kannski væri réttara að segja sem betur fer því þá losnum við við ríkisstjórnina. En þannig er þetta bara.

Ég get tekið undir það sem kom fram í máli hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar um það hvernig haldið er á málum. Og ég hef ekki skilið það enn þá. Af hverju má ekki ræða málið í þeim eðlilega farvegi sem það er? Við erum með töluverða áhættu af þessari fjárfestingu. Það eru líka töluverðir plúsar og mikilvægir sem kemur fram í því að þú ætlar að láta greiða veggjöld. Það á auðvitað að taka það í umræðunni í forgangsröðun í samgönguáætlun. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sveitarfélögum og íbúum sem vilja fá þessi göng og vilja borga þetta háa veggjald sem er þúsund kall á sama tíma og borgaðar eru um 400 kr. í Hvalfjarðargöngin. Ég ber mikla virðingu fyrir þessu fólki og það ætti að taka eðlilega umræðu um samgönguáætlun en ekki eins og við erum að gera núna.