140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Eins og alþjóð er kunnugt féll dómur í landsdómi í þessari viku, á mánudaginn. Að gefnu tilefni tel ég rétt vegna sögulegs samhengis að vekja hér athygli á því að ég get ekki séð að þær fullyrðingar sem komið hafa fram í fjölmiðlum um að 2. liður ákærunnar hafi verið alvarlegasti ákæruliðurinn eigi við rök að styðjast. Ég sat í þingmannanefndinni og kannast ekki við að svo hafi verið.

Þeir sem hafa áhuga á að fá nánari rökstuðning fyrir þessari afstöðu minni geta farið yfir þingræður þeirra þingmanna sem tjáðu sig um þetta mál á sínum tíma og jafnframt þá afstöðu þeirra þingmanna sem hafa tjáð sig um þetta. Ég vakti athygli á þessu í minni ræðu, fjallaði sérstaklega um þennan ákærulið þar sem ég leyfði mér að fullyrða að honum hefði verið kastað inn í púkkið til að fylla upp í ákæruskjalið. Ég tel að allir þeir sem vilja sjá það sjái á niðurstöðu landsdómsins, því að Geir H. Haarde var ekki gerð sérstök refsing fyrir þennan ákærulið, sjái að þessi orð eiga ekki við rök að styðjast. Ég tel einfaldlega rétt að ræða þetta í þinginu til að gæta samhengis í sögunni.