140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

málefni Farice.

[15:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Árið 2007 var tekin ákvörðun um að leggja nýjan sæstreng til Íslands, annars vegar til að tryggja öryggi fjarskiptatenginga við umheiminn með hringtengingu við Farice 1 sæstrenginn, meðal annars í ljósi óvissu um þjónustu varðandi Cantat strenginn og hins vegar með því að opna ný tækifæri í gagnaversiðnaði. Þessir nýi strengur liggur til Esbjerg í Danmörku og hlaut því nafnið Danice. Eignarhaldsfélagið Farice ehf. tók að sér lagningu þessa nýja strengs og rekstur hans með íslensku eigendum Farice hf. sem hluthafa ásamt nokkrum íslenskum orkufyrirtækjum. Íslenska ríkið átti 32,1% af hlutafé félagsins. Þetta félag var eigandi um 80% alls hlutafjár í Farice ehf., en um 20% voru í eigu Færeyinga. Byrjað var að leggja strenginn 2008 og var hann tekinn í notkun síðla sumars 2009.

Upphafleg fjárfesting í Danice strengnum var áætluð 71 milljón evra og var samningi við gagnaversfyrirtækið Verne ætlað að standa mest undir henni. Þegar til kom reyndist fjárfestingin 20% hærri, meðal annars vegna tæknilegra vandamála við lagningu strengsins og kostnaðar við skammtímafjármögnun og var skuldastaðan komin í 115 milljónir evra. Í kjölfar falls fjármálakerfisins átti félagið í erfiðleikum með að tryggja langtímafjármögnun. Ekki reyndist unnt að fjármagna strenginn á erlendum mörkuðum meðal annars vegna hrunsins og gjaldeyrishafta. Þurfti því félagið að fjármagna strenginn á innlendum markaði, sem á endanum fékkst ekki öðruvísi en með því að ríkið veitti ábyrgð á lánunum. Ljóst var seinni hluta ársins 2009 að félagið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar þar sem forsendur um uppbyggingu gagnavera höfðu ekki gengið eftir. Var því ákveðið að leita eftir fjárhagslegri endurskipulagningu sem miðaði að því að létta á skuldum félagsins og auka eigið fé þess þannig að það yrði rekstrarhæft. Auk þess var eldra hlutafé félagsins fært niður. Á meðan á endurskipulagningu félagsins stóð þurfti að greiða afborganir af láni sem ríkið stóð í ábyrgð fyrir. Var því ákveðið að verja hagsmuni ríkissjóðs með því að veita félaginu skammtímalán svo það gæti staðið við skuldbindingar sínar. Það lán var síðan greitt upp þegar nýtt hlutafé kom inn.

Lánum félagsins var skipt í tvo flokka og var ótryggðum lánum breytt í hlutafé, en ríkissjóður var í ábyrgð fyrir nær öllum þeim skuldum sem ekki hefur verið breytt í hlutafé með þeim hætti. Samhliða því juku ríkissjóður og Landsvirkjun hlutafé sitt og var endursamið við birgja.

Við þá endurskipulagningu var meðal annars byggt á hófsömum áætlunum gagnaveranna sjálfa um vöxt í flutningsþörf. Mikilvægur hluti þessarar endurskipulagningar var einnig sameining eignarhaldsfélagsins Farice ehf. og Farice hf. í eitt félag. Það var gert til að ná fram rekstrarlegri hagræðingu með því að tengja saman rekstur strengjanna tveggja, sem eykur öryggi gagnaflutninga til og frá Íslandi.

Við sameininguna fóru aðrir hluthafar, þar með talið þeir færeysku, út úr félaginu. Endurskipulagning félagsins tók mun lengri tíma en ætlað var og lauk í byrjun árs 2011. Fljótlega var ljóst að tekjur af gagnaverum mundu ekki skila sér eins og gert hafði verið ráð fyrir í forsendum fyrir endurskipulagningunni. Skýringu þess er fyrst og fremst að leita í ytri aðstæðum og versnandi stöðu efnahagsmála utan Íslands, sem og náttúruhamfara sem töfðu uppbyggingu gagnavera. Hluti af vandamálinu er að í kjölfar hrunsins var samið við innlendu fjarskiptafyrirtækin um að koma til móts við þau varðandi verðlagningu og hefur raunvirði þeirra lækkað um 40% frá árinu 2009. Vonast var eftir því að hægt yrði að semja við þau um að þessi lækkun mundi ganga til baka að hluta, en nú er ljóst að ekki næst að leiðrétta það fyrr en samningar við þau losna í október næstkomandi.

Félagið hefur leitað allra mögulegra leiða til að takast á við lausafjárvanda þess en þær leiðir hafa verið mjög takmarkaðar. Hluti af endurskipulagningu og skilmálar í lánasamningum gera það að verkum að félagið getur ekki skuldsett sig frekar og ríkið getur ekki komið inn með meira hlutafé eða lánað félaginu í ljósi ríkisstyrkjareglna og skilyrða ESA. Á fundi ríkisstjórnar þann 11. apríl var farið yfir málefni Farice ehf. og samþykkt að heimila undirskrift þjónustusamnings til fimm ára ásamt því að samþykkja stuðning við fjármögnun hans.

Í ár er gert ráð fyrir að félagið þurfi 355 millj. kr. í þjónustutekjur, en varfærnar áætlanir gera svo ráð fyrir minni þörf fyrir þessar tekjur á næsta ári og að rekstur félagsins verði sjálfbær á næstu þremur árum. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi rekstur félagsins með þeim hætti sem gert var og vonast er til þess að þörf félagsins fyrir þennan stuðning ríkisins verði sem minnst á næstu árum og að áframhaldandi uppbygging gagnavera tryggi þær tekjur sem þarf til að standa undir fjárfestingunum.

Virðulegi forseti. Hv. málshefjandi hélt því fram að ríkisábyrgðin hefði verið virkjuð en svo (Forseti hringir.) er ekki.