140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

málefni Farice.

[15:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Í ljósi orða fyrri ræðumanns vil ég ítreka að ég vona að við séum öll í sama liði þegar kemur að því að tryggja almannahagsmuni. Ástæðan fyrir því að til landsins eru tveir fjarskiptastrengir er sú að það er mjög mikilvægt að hafa tvo strengi til að tryggja fjarskiptaöryggi landsins. Ef annar rofnar höfum við hinn upp á að hlaupa til að tryggja fjarskiptasamband við umheiminn. Það á kannski ekki að þurfa að segja það en ég tel rétt í ljósi umræðunnar að segja það hér.

Á fundi fjárlaganefndar í morgun með fjármálaráðuneyti og formanni stjórnar fyrirtækisins kom fram að eiginfjárstaða Farice ehf. er mjög traust, um 50%, en að rekstrarstaða hafi krafist aðkomu ríkisins vegna breyttra forsendna. Fyrirtækið hefur gert varfærnar áætlanir og mun gera þjónustusamning við ríkið til að treysta rekstrargrundvöll sinn. Það kom jafnframt fram í máli stjórnarformannsins að einn stór aðili sem kæmi í viðskipti við fyrirtækið gæti gjörbreytt rekstrargrundvelli fyrirtækisins til batnaðar.

Það er mjög mikilvægt fyrir hagsmuni almennings og hagsmuni ríkissjóðs að fyrirtækið fjölgi öflugum viðskiptavinum sínum, það mun ekki einungis tryggja góðan rekstur fyrirtækisins heldur jafnframt lægra verð á fjarskiptaþjónustu til notenda á íslenskum markaði.