140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

fylgi við ESB-aðild og íslenska krónan.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Skoðanakannanir að því er varðar aðild að Evrópusambandinu hafa sveiflast mjög frá því að lögð var inn aðildarumsókn. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að fylgið með aðildinni er nokkuð lítið núna. Ég hygg að skýringarnar á því liggi nokkuð ljósar fyrir. Við höfum staðið í makríldeilu við Evrópusambandið og það hefur verið með kröfu um meðalgöngu að því er varðar Icesave-málið. Ég hygg að það hafi haft neikvæð áhrif og birtist okkur í skoðanakönnunum. Síðan hefur staðan í Evrópu á umliðnum vikum og mánuðum verið þannig að það hefur líka haft þessi áhrif en vonandi bara tímabundið. En ég hef trú á því að þegar við komum nær samningsniðurstöðu í þessu máli og hægt verður að kynna niðurstöðuna sem við fáum betur fyrir þjóðinni muni þetta breytast. Ég hygg því að bakslagið sé tímabundið að því er varðar þessa skoðanakönnun.

Hvað það varðar að koma krónunni í skjól er það og hefur verið eitt stærsta mál okkar að skoða gjaldmiðilsmál okkar. Það er alveg ljóst, til dæmis samkvæmt því sem nú liggur fyrir frá Þjóðmálastofnun, að ekkert eitt atriði hefur valdið meiri kjaraskerðingu hjá fólki en staða krónunnar og gengisfellingar sem við höfum búið við þannig að það er mjög brýnt mál að við tökum á gjaldmiðilsmálunum. Það er verið að skoða þau mál í Seðlabankanum og í þverpólitískri nefnd sem kannar þessi mál. Ég er sammála hæstv. utanríkisráðherra um (Forseti hringir.) að það sé tækifæri til að taka á gjaldmiðilsmálunum ef við göngum í Evrópusambandið, ef það verður niðurstaðan getum við komið krónunni okkar í skjól.