140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

auðlegðarskattur, eignarnám og skattlagning.

483. mál
[16:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra er á sama stað og sá ráðherra sem var á undan og sem svaraði mér á 138. löggjafarþingi. Þá spurði ég, með leyfi forseta:

„Hefur ráðuneytið kannað hvers vegna auðlegðarskattur hefur verið afnuminn í sumum Evrópulöndum?“

Svarið þá var bara: Nei.

Svör hæstv. ráðherra benda til þess að það sé nákvæmlega sama upp á teningnum hér. Þegar hæstv. ráðherra talar eins og hann gerði um eignarnámið og eignarskattinn eins og þetta sé eðlisólíkt hvet ég hæstv. ráðherra í mestu vinsemd til að kynna sér af hverju til dæmis þýski stjórnsýsludómstóllinn dæmdi sambærilega skattlagningu ólöglega. Ég hvet hann til að skoða hvað er að gerast í öðrum löndum og ef hæstv. ráðherra gerir það er ég sannfærður um að þá komi annað hljóð frá hæstv. ráðherra.

Í 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar segir:

„Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.“

Út á það gengur málið varðandi spariskírteinin. Ég hef ekki tíma til að fara yfir það í þessu stutta andsvari.

Það eru ekki alltaf tengsl á milli tekna og eigna. Þetta eru ekki sérstaklega há frítekjumörk fyrir fólk sem á til dæmis skuldlaust húsnæði en hefur ekki miklar tekjur. Í svari frá hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra kom fram að 387 fjölskyldur eru með minna en 10 milljónir í heildartekjur en greiða samt sem áður verulega eignarskatta eða auðlegðarskatta.

Það lítur illa út, virðulegi forseti, að það sem var haldið fyrir utan væru lífeyrisréttindi. Það lítur illa út fyrir þessa ríkisstjórn að hún hafi haldið lífeyrisréttindunum fyrir utan (Forseti hringir.) því að það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að ef þau hefðu verið inni þyrftu hæstv. ráðherrar að greiða þennan (Forseti hringir.) skatt.