140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[18:02]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég bind að sjálfsögðu vonir við að hægt sé að ljúka afgreiðslu þessa máls fyrir þinglausnir í vor, eða nær þær nú verða. Það er að sönnu rétt að þetta er mikilvægt mál, mikið hagsmunamál. Ég held að menn hljóti að horfa til þess að þetta eru úrbætur fyrir neytendur og á að treysta stöðu þeirra. Mundu nú ýmsir segja að ekki veitt af, svona í ljósi reynslunnar, að innleiða akkúrat, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi, aukna neytendavernd á sviði fjármálaþjónustu.

Ég bendi á að undirbúningur frumvarpsins fól í sér mjög víðtækt samráð við alla helstu leikendurna. Þar voru fulltrúar frá Fjármálaeftirliti, frá Neytendasamtökum, frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Neytendastofu, þannig að reynt var að leita þannig fanga að öll sjónarmið væru höfð með í farteskinu. Mér er ekki kunnugt um annað en að ágæt samstaða hafi verið í hópnum við undirbúning málsins þannig að það er kannski frekar þingsins sjálfs að svara því hve mikinn tíma þarf í að vinna málið.

Auðvitað er að stærstum hluta um að ræða innleiðingu á þessari tilskipun eins og hún kemur af skepnunni, en það eru frávikin frá henni sem er kannski eðlilegt að menn skoði vandlega. Þar erum við í öllum tilvikum, að ég held, að reyna að teygja okkur aðeins lengra í átt til aukinnar neytendaverndar, það er þá eitthvað sem menn verða að vega og meta á móti því hvort með því sé þetta gert íþyngjandi úr hófi fyrir fjármálafyrirtæki eða aðra lánveitendur. Þó er í einu tilviki ekki gengið jafnlangt og kannski ýtrustu kröfur gætu verið eins og ég fór yfir í framsöguræðu minni, þannig að reynt er að gæta einhvers jafnvægis í því líka.