140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér kemur það fram sem ég komst ekki til að fara í andsvar við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, að spyrja einmitt um það hvort vinna hefði verið sett í að reyna að svara þeim spurningum sem komu fram í harðri andstöðu fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra og hlýtur að vega nokkuð þungt í þessu efni, ekki síst þar sem ekki er hægt að saka hann um að vera stjórnarandstæðingur þar sem hann er nú forustumaður í öðrum stjórnarflokknum. Það kemur fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að í meðförum nefndarinnar hafi ekki verið gerð tilraun til þess að bæta þann rökstuðning en vísað til þeirrar skýrslu sem ég hef séð líka, komst á mjög stuttan fund í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hlustaði þar á annan sérfræðinginn.

Í lokaspurningu minni vil ég spyrja hv. þingmann, þar sem það hefur nú komið fram hjá mörgum aðilum, hvort hann telji það líklegt, ef þessi óskapnaður mundi nú ganga hér fram og verða að veruleika og taka gildi (Forseti hringir.) næsta haust, að ávinningurinn af þessum breytingum muni koma fram hjá þessari ríkisstjórn á því kjörtímabili sem fer nú (Forseti hringir.) senn að ljúka og vonandi sem fyrst.