140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru tvö atriði sem ég ætlaði að drepa á í þessu andsvari. Annars vegar vildi ég umræðunnar vegna halda því til haga að ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni um að ríkisstjórnin sé verklaus. Hún er það ekki alveg, en við hv. þingmaður getum verið sammála um að stundum væri betra að hún væri verklaus en að hún komi hlutum áleiðis. En það er önnur saga.

Ég held hins vegar að það sé rétt að komi fram vegna umræðu um kostnað að ekkert kostnaðarmat fylgdi tillögunni eins og hún var lögð fyrir þingið. Þegar eftir því var spurt, bæði við fyrri umr. og í nefndinni, hvort hægt væri að fá slíkar upplýsingar kom minnisblað, sem vísað hefur verið til, um kostnaðargreiningu á bilinu 125–225 millj. kr. og þá er fyrst og fremst verið að vísa til húsnæðis, eða eingöngu verið að vísa til húsnæðis eftir því sem ég skil best.

Hið sama á reyndar við um svarið við fyrirspurn hv. þingmanns á fyrri stigum um kostnað við fyrri breytingar. Þar er fyrst og fremst horft á beinan flutningskostnað og húsnæðiskostnað en ég held að það sé ekki óvarlegt að halda því fram að sá kostnaður sé umtalsvert meiri, fyrir utan þær breytingar sem svona ráðuneytatilflutningur hefur. Meðal annars hefur það leitt til þess í kjölfar þeirra breytinga sem við þegar þekkjum, a.m.k. í öðru þeirra stóru ráðuneyta sem voru sameinuð í ársbyrjun 2011, hafa mjög margir reyndir og færir starfsmenn kosið að láta af störfum. Það er ákveðinn kostnaður sem er erfitt að meta á tölulegan mælikvarða en er engu að síður staðreynd.