140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni hvernig hann nálgast verkefnið og markmið verkefnisins. En auðvitað hlýtur maður að staldra við spurninguna: Af hverjum breytum við ekki, og ég minntist á það í ræðu minni, vinnubrögðunum og nálgumst verkefnið áður en við leggjum af stað? Og af því að ég hef verið lengi til sjós má líkja því við það að ef maður byrjar alltaf á því að róa á einhverjum báti sem er þegar strandaður þá kemst maður aldrei neitt, það virkar bara þannig. Af hverju þarf alltaf að stranda öllum málum áður en farið er að ræða þau efnislega og farið í einhverja rökræðu og rökhugsun? Þá er líka fyrsta vers í því að það sé sameiginlegt markmið allra að styrkja stjórnsýsluna og hafa hana með þeim hætti. Það er ekki ágreiningur um það þvert á flokka, það getur verið ágreiningur um hvernig eigi að gera það en tökum bara einhverja rökræðu. Auðvitað á að undirbúa mál eins og þetta mál núna, það hefði verið skynsamlegra að undirbúa það með miklu lengri fyrirvara og reyna að ná sátt um það en gefa sér ekki fyrir fram að ekki sé hægt að ná neinni sátt.