140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

útvistun opinberra verkefna til Bændasamtakanna.

[10:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þessar ábendingar hafa að sjálfsögðu verið teknar til gaumgæfilegrar skoðunar og er meiningin að hafa þær með í farteskinu nú þegar eru að hefjast viðræður milli Bændasamtakanna og ríkisins, meðal annars um framlengingu svonefnds búnaðarlagasamnings og er það fyrsti samningurinn sem kemur upp til endurnýjunar eftir að þessar ábendingar komu fram.

Þetta fyrirkomulag á sér langa forsögu, ef svo má að orði komast, og sprettur að hluta til upp úr því að áður voru samtök bænda tvískipt. Annars vegar var Stéttarsamband bænda, sem var í raun og veru stéttarfélagið, og hins vegar Búnaðarfélag Íslands, sem var í reynd stjórnsýslustofnun landbúnaðarmála í verulegum mæli á Íslandi. Það hlutverk færðist saman í eitt í Bændasamtökunum og það fyrirkomulag hélt áfram á ýmsan hátt varðandi leiðbeiningarþjónustu í landbúnaði. Þegar búvörusamningarnir komu til sögunnar önnuðust Bændasamtökin umsjón þeirra eða framkvæmd á grundvelli samninga milli ríkisins og Bændasamtakanna. Það er allt bundið í lög og eru skýrar reglur um hvernig með það skuli farið þannig að í reynd eru Bændasamtökin í því tilviki framkvæmdaraðili eða verktaki sem annast um útgreiðslur hins opinbera fjár. Það sætir að sjálfsögðu endurskoðun eins og öll önnur útgjöld ríkisins og menn geta velt fyrir sér því fyrirkomulagi en það er af þessum rótum sprottið.

Sama gildir um það sem hv. þingmaður nefndi um MAST, að verið er að fara yfir það og reyndar mundu verða umtalsverðar breytingar á starfsemi Matvælastofnunar ef ný lög um dýravernd og búfjárhald næðu fram að ganga og var meiningin að taka það með í leiðinni. Verið er að ganga frá nýju skipuriti fyrir Matvælastofnun og er ýmislegt fleira í vinnslu sem tengist þessum málum þar sem menn hafa meðal annars þessar ábendingar í huga.