140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

útvistun opinberra verkefna til Bændasamtakanna.

[10:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta var nokkuð ítarlegt svar hjá hæstv. ráðherra en ég tel mig þó ekki hafa fengið fullnægjandi svar því að ég innti hæstv. ráðherra eftir því hvort ekki væri örugglega verið að færa þessa stjórnsýslu þangað sem hún á heima, inn í þá ríkisstofnun sem á að hafa þetta með höndum.

Ég vil árétta sem alþingismaður, frú forseti, að það er mikilvægt að Alþingi og framkvæmdarvaldið fari að ábendingum Ríkisendurskoðunar og ég vænti þess að ábendinga hennar og viðbragða við þeim sjái stað í næsta fjárlagafrumvarpi, enda er miklu eðlilegra að þessar tæknilegu breytingar séu gerðar af hálfu ráðuneytisins en ekki af hálfu fjárlaganefndar við fjárlagagerðina. Það ætti að ganga greiðlega fyrir sig þar sem Matvælastofnun hefur lýst yfir áhuga á að fá verkefnið og Bændasamtökin margoft óskað eftir því að fá að losna undan því. (Forseti hringir.)

Ég vil jafnframt spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér um að þar sem í raun og veru sé um byggðastyrki að ræða í þessum málaflokki væri eðlilegt að færa framkvæmd verkefnanna út fyrir höfuðborgarsvæðið, til dæmis til Akureyrar.