140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

bann við innflutningi á hráu kjöti.

[11:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að komið hafa athugasemdir og við vitum hvar við þurfum að betrumbæta vinnubrögð og aðferðir í sambandi við matvælaeftirlit, til dæmis hvað varðar rekjanleika lyfjaleifa og fleira í þeim dúr. Það er einmitt verið að vinna að því og er reglugerð að koma um þau mál.

Það er rétt að menn hafi það í huga í tilviki Matvælastofnunar að sú stofnun fær á sig alveg gríðarlega mikið af flóknum innleiðingum sem hún þarf að glíma við og verkefni hennar er afar flókið og vandasamt. Við höfum ekki getað lagt henni til þá fjármuni sem hún hefði haft fulla þörf fyrir vegna þess að það hlaðast á hana mjög þung og erfið eftirlitsverkefni og innleiðing á endalausum gerðum og tilskipunum sem eru flóknar og miklar. Ef ég man rétt hafa eitthvað um 150 slíkar komið núna á tiltölulega skömmum tíma og lent á borðum þessarar stofnunar, svo haldið sé uppi nokkrum málsvörnum fyrir stofnunina því að stundum er óvægilega að henni sótt að mínu mati. (Forseti hringir.)

En til að svara spurningunni þá hefur það komið til skoðunar að gerð yrði stjórnsýsluúttekt á Matvælastofnun en það hafa engar ákvarðanir verið teknar um það meðal annars vegna þess að hún er í miklum önnum. Verið er að breyta skipuritinu og við ætlum að minnsta kosti að láta það (Forseti hringir.) ganga yfir áður en annað verður ákveðið.