140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

skattar og gjöld.

653. mál
[17:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegir forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Það kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, að við höfum lítillega fjallað um þetta í nefndinni. Ég vek athygli á því að þetta er að verða regla í þinginu, í það minnsta hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Einu sinni gerði hv. þm. Ásta Möller sem var þá formaður heilbrigðisnefndar það sem öllum fyndist rökrétt, sendi mál til umsagnar áður en það var tekið fyrir í nefndinni. Ég held að það hafi orðið fjölmiðlaumfjöllun í tvo daga, það þótti þvílíkt hneyksli og annað eins hafði ekki sést. Þó að það hafi ekki verið þeir hv. þingmenn sem hér töluðu sem tóku þátt í því voru þeir úr flokkum þeirra. En ég geri engar athugasemdir við þetta, mér finnst það merki um skynsamlega málsmeðferð að um leið og við höfum tækifæri til þess að fjalla um frumvarp gerum við það og það eykur líkurnar á að við getum vandað okkur og gert þetta vel.

Það má hins vegar gagnrýna okkur, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, fyrir að ræða ekki nóg í málum hér í dag en það er af öðrum ástæðum. Við verðum þá að bæta það upp með þeim mun vandaðri málsmeðferð í nefndunum því að það er ekki þannig hugsað í þingsköpunum að fara ekki betur yfir mál við 1. umr.

Þó ætla ég aðeins að benda hér á að ég er ánægður með að við séum að tala um að umhverfis- og auðlindaskattarnir verði ræddir í tengslum við fjárlög en ekki núna, ég held að það væri mjög óskynsamlegt. Það kemur líka fram að hér er flækjustig sem snýr að því að skylda milligönguaðila til að halda eftir staðgreiðslu eins og kemur fram í breytingum um fjársýsluskattinn. Það er augljóst að það gæti skapað mikil vandamál með það litla sem við erum búin að heyra af þessu máli. Ég held að það sé mjög mikilvægt í þessari skemmri skírn, því að við erum að tala hér um að ef við ætlum að gera þetta að lögum í vor erum við að fara í gegnum hluti sem eru í eðli sínu flóknir. Ef við sjáum hér einhverja annmarka, hættu á slysum, held ég að við ættum að geyma það til haustsins í stað þess að ganga frá því án þess að vita nákvæmlega hvað er á ferðinni.

Hér eru líka mál sem maður hefði ekki átt von á að yrðu umdeild. Ég tek ekki undir þau sjónarmið en af því að mörgum finnst mikill mismunur á þeim aðilum sem hafa fengið verðtryggð húsnæðislán miðað við þá sem hafa fengið gengislán hafa heyrst þær raddir að það sé ekki sanngjarnt að þeir sem eru með gengistryggðu lánin og hafa fengið úrlausn fyrir dómstólum fái sömuleiðis auknar barnabætur og vaxtabætur miðað við hina sem eru með verðtryggðu lánin.

Við munum fara þetta allt yfir í hv. nefnd. Ég þakka hv. þingmanni og hæstv. ráðherra fyrir framsöguna en það er margt í þessu máli sem við þurfum að skoða vel og okkur ber skylda til þess.