140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

dómur yfir flóttamönnum á unglingsaldri.

[10:54]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Fréttir berast af því að fyrir nokkrum dögum hafi tveir ungir menn verið teknir á Keflavíkurflugvelli, flóttamenn með fölsuð skilríki. Við það gerir maður auðvitað enga athugasemd en það sem síðan gerðist var að þeir voru dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness til óskilorðsbundinnar fangelsisvistar og hófu afplánun þess dóms eins og skot. Síðan hefur það farið öðruvísi og af fréttum má skilja að þar hafi atbeini hæstv. innanríkisráðherra ráðið nokkru, sem ég þakka fyrir, en augljóslega hafa átt sér stað mistök í kerfinu sem þarf að fara í.

Mér sýnist meðal annars að túlkun 31. gr. flóttamannasamningsins frá 1951 hafi ekki verið kunn þeim sem fyrir þessu stóðu. Það eru auðvitað mistök í þessum efnum að kalla ekki til barnaverndaryfirvöld þegar svona lagað gerist. Forstjóri Barnaverndarstofu hefur látið í ljós afar neikvætt álit sitt á þessu máli og sagt meðal annars að það brjóti í bága við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem við höfum gerst aðilar að.

Fréttir herma líka að þeir sem fyrir þessu stóðu segi sem svo: Þessir ungu menn eru ekki 15 og 16 ára eins og þeir halda fram. Þar er líka vitnað í Finna, þeir voru í Finnlandi áður en þeir komu hingað. Það má vel vera, það getur enginn dæmt um það. Reglur um móttöku flóttamanna og hegðun við flóttamenn ganga út á að láta þá njóta vafans (Forseti hringir.) í þeim tilvikum þar sem um slíkt er að ræða og það á auðvitað alveg sérstaklega að gilda um börn og unglinga.