140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skiptir máli að fólk sé meðvitað um að í greinargerðinni, í rökstuðningnum, kemur afskaplega lítið fram. Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði að þetta hefði ekkert verið skoðað, ekkert verið tekið út og hann nefndi að einhverjir þrír sérfræðingar hefðu búið til stutta skýrslu sem færi í rauninni gegn þeim tillögum sem hér eru nefndar, þá sérstaklega varðandi efnahags- og viðskiptaráðuneytið.

Ég vek athygli á því og hvet menn til að skoða umræður um stjórnarráðsbreytingarnar 2007. Þar talaði til dæmis Steingrímur J. Sigfússon um það sem almenn sátt var um, að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið væri of stórt. Hann kom akkúrat með rökin sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason fór yfir og Ragna Árnadóttir, að ráðuneytin þyrftu að vera í þeirri stærð að yfirsýn væri yfir þau til að hægt væri að vinna í stefnumótun og öðru slíku þannig að embættismenn mundu ekki ráða of miklu.

Hvað gerir síðan þessi ríkisstjórn? Hún sameinar tryggingamál aftur og heilbrigðismál og félagsmál. Það þýðir að ráðuneytið er með um 70% af ríkisútgjöldunum. Það getur enginn haldið því fram að góð yfirsýn hafi verið yfir þessa málaflokka eftir að þeir fóru þarna yfir. Það er ekki hægt að finna nein rök fyrir því.

Varðandi kostnaðinn er ekkert sem bendir til þess að það verði sparnaður. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði árið 2007 að það væri hlægilegt og hann gerði ekkert með það að sameining ráðuneyta mundi spara einhverja fjármuni. Ég ætla ekki að taka svo sterkt til orða, en það er ágætt að vekja athygli á því hvað hæstv. ráðherra sagði í stjórnarandstöðu.

Það eina sem er alveg ljóst varðandi kostnaðinn, því að mesti kostnaðurinn er dulinn og kemur hvergi fram eins og orkan sem fer í þessar breytingar hjá starfsfólkinu, það gerir ekki annað á meðan, er húsnæðiskostnaðurinn sem fer í hálfan milljarð á þessu kjörtímabili (Forseti hringir.) í breytingu á húsnæði í tengslum við stjórnarráðsbreytingar. Getum við ekki notað þá peninga í eitthvað annað?