140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðu hans. Hann fór ansi vel yfir þá kratavæðingu sem á sér stað með þessari þingsályktunartillögu um að stækka ráðuneytin og hafa þau þannig úr garði gerð að erfitt verður að hafa yfirsýn yfir málaflokkana innan ráðuneytanna. Þetta hefur verið gagnrýnt í þessari umræðu og svör meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd voru á þá leið að þá yrði bara ráðnir aðstoðarráðherrar. Það er mjög undarlegt að það skuli fyrst koma fram í nefndaráliti eftir fyrri umr.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvað telur hann búa að baki því að lagt er svo mikið ofurkapp á það núna að þessar breytingar fari fram þótt kjörtímabil ríkisstjórnarinnar sé að verða búið, því fyrr því betra, og minna en ár í kosningar samkvæmt lögum? Er ríkisstjórnin að mati þingmannsins á einhvern hátt að bregðast við kröfu Evrópusambandsins um sameiningu ráðuneyta til að liðka um fyrir Evrópusambandsumsókninni?

Og í öðru lagi langar mig að spyrja þingmanninn um það sem hann ýjaði aðeins að í ræðu sinni. Er ekki verið að embættisvæða Stjórnarráð Íslands með því að stækka ráðuneytin svona mikið og framkvæmdarvaldið þar með að úthýsa valdi sínu, ráðherravaldinu, til embættismanna vegna stærðar málaflokkanna sem þingsályktunartillagan býður?