140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef áður vakið athygli á því að það er svolítið sérkennilegt með þessa umræðu alla saman að eftir því sem henni vindur fram, þeim mun óljósari verður allur málatilbúnaðurinn sem býr hér að baki og ekki síður hitt, hvernig menn hafa hugsað sér skipan þessara ráðuneyta og þeirra stofnana sem starfa undir þeim. Við fáum ekki mikla mynd af starfsemi ráðuneytanna nema við fáum skýra mynd af því hvernig skipan stofnananna á að vera. Það sem gerist á vettvangi stofnananna er svo snar þáttur í verkefnavinnu ráðuneytanna að við hljótum að þurfa að fá miklu skýrari svör við því hvernig þessum málum verður hagað í framtíðinni.

Ástæðan fyrir því að við fáum ekki svörin er mjög einföld, sú að hæstv. ráðherrar sem mæla fyrir málinu hafa ekki hugmynd um svörin, þeir eru ekki búnir að útkljá þetta deiluefni. Það hefur að vísu verið sagt við okkur að Hafrannsóknastofnunin verði undir nýja atvinnuvegaráðuneytinu en um leið er sagt að nýja umhverfis- og auðlindaráðuneytið eigi að hafa einhverja aðkomu að þessu. Þegar maður les síðan með hvaða hætti sú aðkoma á að vera er maður engu nær. Það er sagt að þetta nýja ráðuneyti umhverfis og auðlinda eigi að hafa það mikilvæga hlutverk að leggja grunn að sjálfbærri nýtingu og hafa dularfulla aðkomu að þessu máli. Ég spurði þá til dæmis: Með hvaða hætti verður staðið að grundvallarákvörðunum eins og um hámarksafla á einstökum fisktegundum?

Þetta hefur alveg klárlega alla tíð verið á forræði fyrst sjávarútvegsráðuneytisins og síðan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Nú er hins vegar með einhverjum óskýrðum og óskilgreindum hætti talað um að nýja umhverfis- og auðlindaráðuneytið eigi að hafa þarna einhverja aðkomu, örugglega ekki bara til að eiga huggulegt kaffispjall heldur auðvitað til að setja svip sinn á þetta. Þá er það orðið þannig að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, nú atvinnuvegaráðuneyti ef þetta nær fram að ganga, mun ekki lengur hafa eiginlegt forræði á málinu heldur deila því með öðru ráðuneyti.

Þetta er niðurstaðan af hrossakaupunum. Upphaflega ætlunin var sú, og það er sú hugmynd sem var kynnt í greinargerð með lagafrumvarpinu á sínum tíma, að færa þessi verkefni algjörlega frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, atvinnuvegaráðuneytinu, til umhverfisráðuneytisins. Sú niðurstaða hefur greinilega ekki orðið ofan á enda er um það gríðarlegur ágreiningur. Þá var farin þessi millilending til að reyna að sætta menn, til að fá menn til fylgilags við þessar breytingar, að koma þessum málum þannig fyrir að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefði þarna aðkomu, ekki til þess að eiga huggulegt kaffispjall eins og ég sagði heldur til að móta niðurstöðuna sem fengin verður að lokum.

Þetta er allt saman mjög sérkennilegt.

Síðan fylgir með í kaupunum og er partur af þessum kaupskap það sem flogið hefur hér fyrir, hefur verið fullyrt í fjölmiðlum og ekki borið til baka, það að önnur stofnun, minni stofnun en hins vegar gríðarlega mikilvæg, Veiðimálastofnun, verði eins konar sárabót fyrir það að umhverfisráðuneytið hafi ekki fengið sinn hlut, Hafrannsóknastofnun, og sárabæturnar eru þá þær að það eigi að færa Veiðimálastofnun undir umhverfisráðuneytið.

Ég kalla enn og aftur eftir skýrum svörum við þessu. Formaður nefndarinnar kom í andsvar við mig þar sem ég meðal annars lagði fram þessa spurningu en ég fékk engin svör.

Ég vil ekki ljúka þessari ræðu öðruvísi en að fara aðeins í hinn hluta málsins sem er stofnun hins nýja fjármála- og efnahagsráðuneytis eða hvað það ráðuneyti á að heita. Það er mjög sérkennilegt mál. Ég hef farið í gegnum þá umræðu sem hefur sprottið af þessu fyrr á þessu kjörtímabili. Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu 18. júní 2009:

„Nokkuð hefur verið spurt um það af hverju verið er að búa til efnahagsráðuneyti og af hverju þessi mál eigi ekki að vera áfram hjá forsætisráðuneytinu. Það er auðvitað skoðun út af fyrir sig en ég held að þegar menn horfa til reynslunnar og til þeirrar skýrslu sem finnski sérfræðingurinn Jännäri gerði í þessu efni þá taldi hann rétt að hafa þessi mál á einum stað í einu ráðuneyti. Við þær breytingar sem við höfum gert í þessu efni var horft til Danmerkur sem er þekkt fyrir vandaða stjórnsýslu og sterka stöðu efnahagsmála en þar er fyrirkomulagið með þessum hætti.“

Með öðrum orðum segir hæstv. forsætisráðherra okkur að sú breyting sem var gerð í upphafi kjörtímabilsins við að setja þessi verkefni inn í nýtt efnahagsráðuneyti sem eigi að verða öflugra ráðuneyti en áður sé til fyrirmyndar, það sé fyrirmyndarstjórnsýsla, það sé eins og í Danmörku þar sem stjórnsýslan sé til sérstakrar eftirbreytni.

Hvað hefur þá breyst? Hefur runnið upp fyrir mönnum það ljós að stjórnsýslan í Danmörku hafi kannski ekki verið eins góð og menn töldu? Hafa menn skipt um skoðun? Eru menn þeirrar skoðunar eftir þessa reynslu að þetta fyrirkomulag hafi verið vont, að fyrirmyndin frá Danmörku hafi ekki verið góð? Við fáum engin svör við þessu. Við vitum svarið í sjálfu sér. Það er bara það að til þess að ráðherrakapallinn gengi upp um áramótin þurfti að skipa þessum málum svona.

Hæstv. forsætisráðherra sagði líka í andsvari þennan sama dag, 18. júní 2009, með leyfi virðulegs forseta:

„Ég tel það í samræmi við eðlilega stjórnarhætti í þessum málum að efnahagsmálin eigi sem mest að vera á einni hendi og nú verður það í höndum sérstaks efnahagsráðuneytis.“

Hæstv. ráðherra var með öðrum orðum með öllum sínum sannfæringarkrafti að reyna að útskýra fyrir okkur hér 18. júní 2009 að skipulagið á þessum málum ætti að vera það að við værum með sérstakt efnahagsráðuneyti og þessi mál ættu síðan að fara inn í það efnahagsráðuneyti en ekki eins og verið hefði. Hæstv. ráðherra lagði mjög mikið á sig til að það gæti komist fram og þannig varð það eins og allir vita.

Enn ætla ég að vitna í hæstv. forsætisráðherra, nú í ræðu frá 7. desember 2011, þar sem vikið var að því að hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, formaður VG, hefði talað fyrir því að færa öll þessi mál inn í fjármálaráðuneytið, að málasvið efnahagsráðuneytisins ætti að bætast við málasvið fjármálaráðuneytisins enda var hann þar þá húsbóndi. Þá segir hæstv. forsætisráðherra út af þessu, með leyfi virðulegs forseta:

„Þar sem vitnað er í fjármálaráðherra og svör hans, væntanlega hér á þingi, um að hann teldi að efnahagsmálin ættu að vera í einu ráðuneyti spyr ég: Eru ekki efnahagsmálin í einu ráðuneyti í dag? Það sem sneri að efnahagsmálum var að hluta til flutt úr forsætisráðuneytinu yfir í efnahagsráðuneytið og það sem þar var til staðar, í forsætisráðuneytinu, eins og Seðlabankinn, var flutt yfir í efnahagsráðuneytið. Engin sérstök fagleg skoðun hefur farið fram á því hvort það sé rétt og eðlilegt að gera á þessu breytingu þannig að ég ítreka að engin ný ákvörðun hefur verið tekin um að breyta eða leggja niður efnahagsráðuneytið.“

Þetta var 7. desember 2011 þar sem þá var upplýst að engin fagleg skoðun hefði farið fram á málinu og hæstv. ráðherra útskýrði að það væri skynsamlegasta fyrirkomulagið að hafa málin þannig að þessir hlutar væru allir í sérstöku efnahagsráðuneyti, gera það sterkt og öflugt og skipa þessum málum þannig. Þetta er bara þremur vikum áður en ráðherrakapallinn var síðan endanlega lagður og öllu snúið á hvolf miðað við það sem hæstv. ráðherra sagði.

Og enn vitna ég í hæstv. forsætisráðherra, enn frá sama degi, enn frá 7. desember 2011, þar sem hæstv. forsætisráðherra segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Ég get talað enn skýrar, ég hef ekki séð nein rök fyrir því að sameina efnahagsráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Ég þarf þá að fá mjög sterk fagleg rök fyrir því ef einhverjar breytingar eiga þar að verða. Ég ítreka aftur að ekki hafa verið teknar neinar ákvarðanir um það, hvorki fyrr né nú.“

Ég undirstrika dagsetninguna í þessum efnum, 7. desember. Síðan kemur aðventan og svo koma jólin og hæstv. ráðherrar hafa væntanlega haft annað að sýsla en stússast í breytingum á Stjórnarráðinu. Fáeinum dögum eftir þetta, eftir alla þessa miklu svardaga hæstv. forsætisráðherra um að engar breytingar væru fyrirhugaðar, ekki stæði til að sameina þessi mál í fjármálaráðuneytinu eins og nú er boðað, segir hæstv. forsætisráðherra: Það þarf endilega að hafa þetta í efnahagsráðuneytinu, þar á þetta best heima, þannig er þetta í Danmörku og þar er stjórnsýslan til fyrirmyndar.

Hæstv. ráðherra segir nokkrum dögum áður en öllu er dembt á hvolf að engin fagleg rök séu fyrir því að sameina starfsemi efnahagsráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins og að ekki hafi verið teknar neinar ákvarðanir í málinu.

Þetta dregur upp algjörlega skýra mynd af því sem þarna var að gerast, það sem blasir við hverjum manni og sást nánast í beinni útsendingu um áramótin þegar hæstv. ráðherrar, forustumenn stjórnarflokkanna, véluðu um þessi mál, lögðu sinn mikla kapal og til að þeim tækist að losa sig við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þurftu þau í leiðinni að búa til þessa gerviuppstokkun á efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu.