140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:21]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Styrkur flokksins var ekki hvað síst í góðri kosningu úti á landi, einmitt meðal fólks sem tengdist sjávarútvegi og landbúnaði. Bændur, þeir sem unnu í matvælavinnslu, treystu á að flokkurinn stæði við þau loforð sem höfðu verið gefin, m.a. að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu og standa vörð um þessar stoðgreinar.

Hins vegar þarf afstaða arftaka gamla Alþýðuflokksins ekkert að koma á óvart í sjálfu sér. Ég er uppalinn í sveit og man eftir því að þegar þurfti að segja eitthvað sem allir gætu sameinast um var nóg að nefna Alþýðuflokkinn og afstöðu hans til íslensks landbúnaðar. Hún var löngu kunn, enda þekkjum við þá umræðu frá býsna mörgum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fulltrúar Alþýðuflokksins hafa óskað eftir því að leggja niður landbúnaðarráðuneytið eða vega að stoðþjónustu landbúnaðarins með einum eða öðrum hætti.

Enn er ekki of seint að snúa við. Þessi ráðuneytamál eru enn í dag, og allra helst núna, brýnustu mál þjóðarinnar. Ættum við ekki frekar að ræða skuldastöðu heimilanna sem hefur beðið eftir að komist á dagskrá? Ég hef verið talsmaður og baráttumaður fyrir íslenskum landbúnaði og þessum atvinnugreinum, og atvinnugreinum vítt og breitt um landið, og verð það áfram. Áform um breytta ráðuneytaskipan og að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og sameina það í atvinnuvegaráðuneyti (Forseti hringir.) eru í andstöðu við meginþorra þeirra sem (Forseti hringir.) búa úti um land, bæði hvað varðar sjávarútveg og landbúnað.