140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ræða hennar er, eins og fleiri í þessari umræðu, töluð nánast út í loftið því að hér er enginn til að svara fyrir þær spurningar sem þingmaðurinn hefur. Hér varpaði hún fram spurningum sem áttu erindi til meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en hér er ekki nokkur einasti þingmaður til að svara þeim spurningum sem þingmaðurinn hafði.

Ég ætla ekki að gerast talsmaður ríkisstjórnarflokkanna í þessari umræðu og í þessu andsvari en vil upplýsa um það, vegna þess að þingmaðurinn spurði hvers vegna málið hefði staldrað svo stutt við í nefndinni, ekki beðið eftir umsögnum aðila í málinu, að segja má að það séu engin svör við því og engin haldbær rök. Jú, því var borið við að þetta hefði verið unnið svo vel við síðustu stjórnarráðsbreytingar að ekki þyrftu að koma umsagnir á nýjan leik.

Það er tóm blekking vegna þess að í síðustu tillögum að breytingum á stjórnarráðsskipulaginu var ekki ákvæði um að það ætti að búa til nýtt ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála eins og það lítur út í dag. Það setur málið í algjöra upplausn og aðalmálið í þessu er náttúrlega að það eigi að leggja niður efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Þetta eru vinnubrögðin sem hér eru viðhöfð.

Það skal líka upplýst að það kom fram í dag í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar að þetta væri knúið áfram að kröfu ESB, að breyta Stjórnarráðinu, að taka upp svo stórar stjórnsýslustofnanir að íslensk stjórnsýsla muni ráða við Evrópusambandsumsóknina og að taka við styrkjum.

Mig langar til að spyrja þingmanninn vegna atkvæðagreiðslunnar sem fór hér fram um ESB-málið á sínum tíma: Telur þingmaðurinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir að það sé landsmönnum til farsældar að taka upp svo stórar stjórnsýslustofnanir (Forseti hringir.) sem lagt er til í þingsályktunartillögu þessari?