140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er alveg rétt að maður sér tækifærin fljóta fram hjá, það má orða það þannig. Það er ekki verið að huga að nauðsynlegum framkvæmdum og breytingum á stjórnsýslu eða efnahag landsins eða hvar sem við setjum fingurinn niður. Það er ekki verið beita réttum aðferðum, að mínu mati, til að koma okkur hér út úr þeim efnahagsþrengingum sem við erum í. Næg eru tækifærin hringinn í kringum landið.

Nú er talað um að styrkja stjórnsýsluna, að það sé verið að styrkja ráðuneytin með þessum breytingum. Ég velti fyrir mér hvort ekki séu aðrar leiðir til að styrkja ráðuneytin ef þau eru svo veik, t.d. með því að setja verkefnin ekki inn í einhverjar sérstakar stofnanir heldur í ráðuneytin sjálf og styrkja þau með því. Mér hefur fundist það í mörg ár. Stjórnsýslunni er úthýst í einhverjar undirstofnanir í stað þess að vera með fleiri sérfræðinga í ráðuneytunum ef þau eru of veik. Þá höfum við væntanlega verið að veikja þau. Þetta er nokkuð sem þarf að skoða að mínu viti.

Við erum að ræða hér mál sem er í algjörum hnút og hér er búið að lýsa því yfir að stjórnarandstaðan sé til í að breyta dagskrá þingsins, koma að dagskrármálum sem þurfa að komast til nefnda. Það þarf ekkert að gera nema fresta þeirri umræðu sem hér er í gangi til að koma þeim málum að en á það hefur ekki verið hlustað. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki verið í salnum til að taka við þeim góðu tilboðum sem hér hafa verið sett fram.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann enn og aftur hvort ekki væri farsælla (Forseti hringir.) í fyrsta lagi að reyna að ná einhvers konar sátt í svona máli og í öðru lagi hvort áhyggjur hennar af stjórnsýslunni (Forseti hringir.) væru svipaðar og þær sem ég hef lýst.