140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir séum nokkuð sammála um þetta. Við sátum saman í svokallaðri þingmannanefnd sem útfærði viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar er talsvert fjallað um ábyrgð ráðherra og hvernig þeir eigi að fara með ábyrgðarhlutverk sitt gagnvart undirstofnunum sínum, sjálfstæðum eða þeim sem heyra beint undir ráðherra.

Þegar við horfum til hrunsins þá vorum við með viðskiptaráðherra sem var yfir Fjármálaeftirlitinu og fleiri stofnunum. Það hefur komið fram í viðtölum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að menn töldu sig ekki hafa neitt valdboð eða rétt til að fara yfir þau mál. Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort ráðherra í mjög víðfeðmu ráðuneyti með mjög ólíkar stofnanir sé líklegri til að einbeita sér að því að bera þessa ábyrgð, sem við höfum lagt gríðarlega áherslu á að sé skýr og afmörkuð, og hann beri ábyrgð á undirstofnunum sínum, jafnvel þó að um sjálfstæðar stofnanir sé að ræða, um leið og hann sinni öllum öðrum verkefnum, eða er líklegra, eins og ýjað hefur verið að en við höfum því miður ekki getað rökrætt við stjórnarliða eða þá sem fram hafa komið með þetta mál, að menn muni horfa upp á að allt í einu verði komnir fjórir undirráðherrar, einn yfir landbúnaði, annar yfir sjávarútvegi, þriðji yfir iðnaði og síðan fjórði yfir bankamálum. (Forseti hringir.) Þá kemur stóra spurningin: Hver ber ábyrgð á þeim?