140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:03]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að snúa þessu við og ég svari. Ég skil ekki þennan flýti allan og málsmeðferð sem mér finnst vera afar óvönduð. Með þingsályktunartillögunni fylgir greinargerð upp á svo sem fimm blaðsíður þrátt fyrir að legið hafi fyrir í stjórnarsáttmála að það væri stefna ríkisstjórnarinnar að gera þetta. Það er eins og ríkisstjórnin hafi vaknað um miðjan mars og séð að nú væri að koma sá tími þar sem ætti að skila inn þingmálum og hún hafi þá ákveðið að rumpa upp einu máli og skella því inn fyrir 1. apríl. Það finnast mér ekki vera vönduð vinnubrögð.

Ef ég tiltek nokkrar tölur þá er hv. þingmaður um það bil 15 sentímetrum hærri en ég en ég er um 15 árum eldri en hann, við skulum jafna það á því. En eitt hefur hann fram yfir mig og það er að hann er með mun meiri þingreynslu en ég þótt hann sé yngri að árum. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Eru þetta vinnubrögð sem tíðkast hafa í þingmannstíð hv. þingmanns eða er það alveg nýtt að stórmálum sé rumpað upp og allri stofnanaumgjörð ríkisins sé umbreytt svona rétt í þinglok og afraksturinn af því er að allt fari í háaloft? Er það alvanalegt eða er það eingöngu bundið við þá ríkisstjórn sem nú situr?