140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:44]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að sósíalistastjórnir og kommúnistastjórnir hafa í gegnum söguna yfirleitt einbeitt sér að því að byggja upp iðnað og orkuöflun og annað slíkt, öfugt við þá sósíalistastjórn sem við búum við. Hér er áherslan á eitthvað allt annað. Það er kannski þess vegna sem við sjáum landsmenn ekki glepjast eins og menn hafa oft glapist af sósíalistastjórnum í gegnum söguna vegna þess að hagvöxtur á ósjálfbæran hátt leiðir til að byrja með til efnahagslegra framfara fyrir þegnana.

Það er vissulega merkileg tilraun sem er verið að gera hér á landi. Nú hefur hún staðið í þrjú ár og það er komin einkunn fyrir hana, tilraunin mistókst. Þessi ríkisstjórn fær falleinkunn. Þess vegna held ég að það þurfi ekki að prófa þetta oftar í sögunni. Nú höfum við bæði prófað sósíalisma með orku og sósíalisma án orku og hvorugt virkar. Ég held að athafnafrelsið sé langbest og það að taka tillit til sem flestra, miðjumennska sem sagt, fái þjóðfélög til að virka best, þannig hefur okkur Íslendingum til að mynda liðið best. Mestu kaupmáttarskeið á Íslandi hafa orðið undir hægri og miðjustjórnum en mestu lífskjaraskerðingarnar undir vinstri stjórnum.