140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

réttarstaða einstaklinga með kynáttunarvanda.

736. mál
[15:28]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að þó að þetta mál varði ekki marga þá er það mikilvægt, og ég held að það sé dæmigert fyrir mörg mál, þau skipta miklu fyrir viðkomandi einstaklinga. Og þetta er stórmál fyrir viðkomandi aðila.

Varðandi nafnbreytingarnar og þann tíma sem þarf að líða þá kann ég ekki alveg skýringu á því. Þetta hefur verið eitt af stóru álitamálunum í þessu máli og sá aðili sem vann með þessum hópi transgender fólks í nefndinni hefur reynt að finna jafnvægi þar á milli og hvenær eðlilegt sé að nafnbreyting eigi sér stað. Það er reiknað með að hún verði ekki afturkræf nema í einstökum undantekningartilfellum og ekki hægt að hringla neitt með það og því komi nafnið í kjölfar þess að búið er að fara í gegnum allt ferlið. Ég treysti á að þarna hafi menn valið skynsamlega tímalengd og þetta er gert í sátt hjá þeim aðilum sem um þetta fjölluðu. Að öðru leyti get ég ekki svarað því hvort þetta hefði átt að vera mánuðinum fyrr eða síðar.