140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að rifja aðeins upp þær skoðanir sem ég hef haft á þessu ferli öllu saman sem hefur verið býsna lengi í gangi.

Ég tók þátt í því á sínum tíma, 2009, að samþykkja að kosið yrði til stjórnlagaþings. Ég kaus til stjórnlagaþings. Reyndar náðu bara einn eða tveir kosningu af þeim sem ég taldi að ættu að vera þar inni. Ég var auðvitað svekktur yfir því, eins og gengur og gerist. Þær kosningar voru úrskurðaðar ólöglegar, gátu ekki náð fram að ganga. Þá skildi leiðir. Ég gat ekki fellt mig við að stjórnlagaráð yrði sett á fót með þeim hætti sem gert var og sú vinna sem á eftir fór hefur ekki verið að mínu skapi.

Ég hef talað um það nokkuð oft héðan úr þessum stól að rétt hefði verið, eftir að stjórnlagaþingskosningin fór í vaskinn, að setjast niður og gera tilraun til þess að þingheimur kæmi saman að einhvers konar málsmeðferð í framhaldinu. Það varð ekki. Ákveðið var að skipa stjórnlagaráð.

Ég hef endurtekið þessar tillögur um að menn mundu reyna að setjast niður og koma sér saman um eitthvert ferli, eftir að stjórnlagaráð skilaði niðurstöðu sinni, eftir að tillaga meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kom fram um þjóðaratkvæðagreiðsluna, eða skoðanakönnunina eða hvað við köllum hana. Ég held enn að skynsamlegast hefði verið, eftir að ljóst varð að stjórnlagaþingið hafði farið í vaskinn, að hugsa málið upp á nýtt og reyna að ná meira fylgi við að fara í vinnu við breytingar á stjórnarskrá. Ég ætla ekki að fullyrða að tekist hefði að ná 63 þingmönnum saman um einhverja aðferðafræði í því, það er kannski bjartsýni. En það hefði verið tilraunarinnar virði að reyna að skapa stærri meiri hluta á bak við ferlið sem tæki við.

Við erum þar af leiðandi í þeirri stöðu í dag að mikill meiningarmunur er um hvernig eigi að halda áfram með þetta mál. Allar líkur eru á að farið verði í atkvæðagreiðslu í október. Ég geri mér enga grein fyrir hvað sú atkvæðagreiðsla kemur til með að þýða nákvæmlega, það eru svo margar breytur sem geta haft áhrif á það.

Ég verð hins vegar að vera hreinskilinn í því að mér finnst allt of mikið í lagt að fara þessa leið til að fá álit á nokkrum spurningum sem lagðar eru fram. Það eru til aðrar og betri leiðir til að fá álit þjóðarinnar á þeim spurningum. Þar með er ég ekki að útiloka að rétt væri á síðari stigum að leita til þjóðarinnar um skoðun hennar á tillögum sem fengið hefðu efnislega meðferð hjá þinginu, tillögum sem hugsanlega byggðu að einhverju leyti á þessu mikla plaggi hér, tillögum sem byggðu á því sem kom frá þjóðfundinum o.s.frv. Þetta er sú sýn sem ég hef reynt að hafa á þetta mál.

Ég hef líka velt fyrir mér tillögum stjórnlagaráðs og þeim spurningum sem settar eru fram í tillögum meiri hlutans og að mínu viti gengur þetta ekki allt saman. Reyndar eru komnar skýringar á því, það átti ekkert að gera það, sýnist mér. Það hefur hins vegar komið fram hjá mér og mörgum öðrum að fyrst verið er að fara í þennan leiðangur og spyrja þessara spurninga, þá þarf að rökstyðja sérstaklega af hverju þær eru valdar og hafa opinn möguleika á því að bæta við fleiri spurningum.

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með tillögur stjórnlagaráðs, ég verð að vera hreinskilinn með það. Að sumu leyti vil ég kenna því um að mér finnst stjórnlagaráðið hafa verið einsleitur hópur, breiddina skorti þar. Ég efast ekki um að allir hafi mætt þar til funda með góðan hug og reynt að skila frá sér sem bestu plaggi.

Það hlýtur að setja mark á þetta að myndun stjórnlagaráðs byggðist á kosningum sem gengu ekki upp. Persónukjörið sem lagt var út í gekk ekki upp. Að hafa landið eitt kjördæmi gekk ekki upp. Það var alveg ljóst að mikill tækifærismunur var á milli frambjóðenda að koma sér á framfæri, sumir voru þekktari en aðrir fyrir fram. Það er bara eins og gengur í lífinu, en hins vegar var ljóst af niðurstöðum kosninganna að ákveðnir aðilar höfðu töluverða forgjöf.

Ég nefndi áðan að ferlið eftir stjórnlagaþingskosningarnar hefði ekki verið mér að skapi og vil ég ítreka það. Eftir að ég las í gegnum og kynnti mér tillögur stjórnlagaráðs, og merkti við allt of margar tillögur sem mér fannst að þyrfti að skoða sérstaklega, hef ég líka lesið einhverjar af þeim athugasemdum sem komið hafa fram, ég viðurkenni að ég hef ekki lesið þær allar. Athyglisverðastar fannst mér athugasemdir tveggja sérfræðinga, sem ég veit að fjallað hefur verið um hér áður, Ágústs Þórs Árnasonar og Skúla Magnússonar, sem fóru mjög nákvæmlega ofan í nánast hverja grein. Rétt er að halda því til haga að þeir gera ekki athugasemdir við allar greinar en mjög margar og setja fram ýmiss konar athugasemdir, bæði varðandi túlkun og meiningu o.s.frv.

Ef ég veit rétt hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig í þessari vinnu þá á eftir að kafa ofan í allar þessar athugasemdir við hverja grein, kryfja þær og reyna að átta sig á því hver besta leiðin er, besta orðalagið, besta túlkunin eða besta framsetningin o.s.frv. Þessi vinna er eftir og það er miður að verið sé að fara fram með tillögu, þetta plagg hér, í könnun, tillögu sem er augljóslega gölluð, þó svo að á sama tíma eigi að fara fram einhvers konar endurskoðun á henni. Sá sex til sjö manna hópur sem nefndur hefur verið í því sambandi er eins og skoðunarmenn reikninga, þeir eiga að fara yfir þetta og koma með ábendingar og laga ef eitthvað er að.

Ég og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason munum vonandi ná að setja fram breytingartillögur sem við teljum að eigi heima í þessum texta, í þeirri ferð sem verið er að fara, að spyrja þjóðina. Fram hafa komið nokkuð margar breytingartillögur. Sú stærsta og veigamesta er tillaga hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um að nýta ferðina og kanna hug Íslendinga til aðildarumsóknarinnar að Evrópusambandinu. Ég held að meiri hluti þingmanna mundi sýna ábyrgð með því að samþykkja slíka tillögu þar sem umræðuefnið er mjög heitt hér á þingi og í þjóðfélaginu, að þjóðin fái að segja álit sitt, hún var ekki spurð í upphafi. Þegar farið var af stað í leiðangurinn var ekki talin ástæða til að spyrja þjóðina hvort hún vildi fara af stað og leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Ríkisstjórnin fékk ekki það umboð í kosningum að sækja um aðild að Evrópusambandinu, það er alveg ljóst. Annar stjórnarflokkurinn var með það á stefnuskrá sinni að gera það ekki. Það er því eðlilegt að nota ferðina og spyrja út í það stóra mál. Ég mun kannski fara betur ofan í þá tillögu hér á eftir, herra forseti.

Það hafa líka vaknað spurningar sem lúta að grunnþáttum samfélagsins, þegar maður fer í gegnum þær tillögur stjórnlagaráðs sem á að leita álits þjóðarinnar á. Þar er til dæmis 23. gr. um heilbrigðisþjónustu, gríðarlega opin spurning sem vert er að skoða vandlega. Ég hefði til dæmis viljað fá skilgreiningu á því hvað er „fullnægjandi heilbrigðisþjónusta“. Hvað er það? (Forseti hringir.) Það er margt óútskýrt í þessu máli, ég ætla bara að nota þau orð.