140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir gott svar. Það er mjög mikilvægt að hafa þetta nokkuð á hreinu. Það hefur viljað villast inn í þessa umræðu um breytingu á stjórnarskrá að eitthvað í stjórnarskránni hafi tengst hruninu og jafnvel að þessi tillaga frá stjórnlagaráði eigi á einhvern hátt að bregðast við því. Þegar maður les hins vegar tillögur stjórnlagaráðs er ekki hægt að sjá neitt sem er á þann veginn eða má skilja á þann hátt. Það er ágætt að þetta er komið nokkuð á hreint.

Það er annað sem mig langar að inna hv. þingmann eftir og það varðar tillögur stjórnlagaráðs sem á að bera upp eða leita álits á. Í 111. gr. er kveðið á um framsal ríkisvalds. Það á sem sé að auðvelda það að framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana eins og hér kemur fram, með leyfi forseta:

„Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu.“

Af hverju ætli þetta sé valið, friður og efnahagssamvinna. Hvað er Evrópusambandið? Er það ekki efnahagsbandalag Evrópu? Er stjórnlagaráð að greiða því götuna að hægt sé að framselja, verði þetta samþykkt, þetta vald sem augljóslega þarf að gera verði aðild að Evrópusambandinu samþykkt? Þetta er ein af tillögum stjórnlagaráðs. Því veltir maður fyrir sér hvers vegna ekki sé spurt í þeirri könnun sem á að gera í október hvort þjóðin vilji ganga þessa leið, hvort þjóðin vilji auðvelda það og einfalda að framselja ríkisvald.