140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo virðist sem stjórnarmeirihlutinn leiti ýmist í niðurstöðu þjóðfundarins eða niðurstöðu stjórnlagaráðs. Ég velti fyrir mér hvort það sé einhver hentistefna hvor leiðin er farin. Ég held að það megi alveg skilja það þannig að í þessu tilviki hafi stjórnarmeirihlutinn verið ósáttur við það að stjórnlagaráð hafi ekki komist að þeirri niðurstöðu að það ætti að jafna atkvæðisréttinn og þess vegna farið fram með þessa spurningu.

Það undirstrikar enn meira skoðanir eða hugmyndir þeirra sem hér hafa talað, að forsaga þessara spurninga sé ekki endilega alltaf sú sama eða byggð á þeirri löngu vinnu sem er búin að fara fram. Ég tel að það megi færa fyrir því rök.

Ég er sammála því að oft og tíðum sé betra að gefa málum tíma og ræða þau. Þá komast menn jafnvel að skynsamlegri niðurstöðu en í upphafi þegar farið var af stað. Án þess að vita það ímynda ég mér að það hafi verið niðurstaða stjórnlagaráðs um þetta mál að ekki væri hægt að leggja fram tillögu um jöfnun atkvæðisréttar í tillögum þess nema þá að leggja til einhverjar viðameiri tillögur er lúta að annars konar jafnrétti gagnvart þeim sem búa fjær höfuðborginni. Nú er ég bara með getgátur. Miðað við hvað tillögur stjórnlagaráðs eru oft og tíðum ítarlegar er þetta svolítið sérstakt.