140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

aðkoma lífeyrissjóðanna að skuldaleiðréttingu.

[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil af því tilefni að hér eru nefndir samningar sem eru í gangi milli lífeyrissjóðanna um lánsveðin, lýsa því yfir að mér þykir miður að ekki hefur náðst samkomulag við lífeyrissjóðina um eðlilega hlutdeild þeirra í afskriftum að því er varðar lánsveðslánin. Stór hluti af lánsveðunum er hjá lífeyrissjóðunum, mig minnir að 2.400 einstaklingar séu með slík lánsveð, en ekki er öll nótt úti enn um að það takist. Ég vona að það takist vegna þess að stór hluti af sjóðsfélögum lífeyrissjóðanna á auðvitað mikið undir því komið að við náum því í höfn, bæði varðandi þær aðgerðir sem farið hefur verið í vegna skuldavanda heimilanna og þær sem nú er verið að vinna að varðandi lánsveðin Ég tel að ríkisstjórnin hafi verið sanngjörn gagnvart lífeyrissjóðunum vegna þess að hlutur þeirra í þeim aðgerðum sem við höfum hingað til farið í hefur ekki verið mikill og þeir hafa fært sín rök fyrir því.

Varðandi það að þetta geti haft jákvæð áhrif á lánasöfnin er ég sammála því, en þá er spurning í hvaða mæli er verið að færa niður lánasöfnin í aðgerðum vegna skuldavanda heimilanna vegna þess að stærðargráðurnar verða að vera viðráðanlegar fyrir lífeyrissjóði, ríkissjóð, Íbúðalánasjóð og bankana. Ég tel til dæmis að ekki hefði verið skynsamlegt eða hagkvæmt fyrir efnahag landsins að fara út í eins miklar niðurfærslur og hv. þingmaður talaði fyrir, að minnsta kosti í upphafi kjörtímabilsins, upp á 200 eða 300 milljarða kr. Smærri aðgerðir sem farið hefur verið í eru viðráðanlegar fyrir sjóðina og ríkissjóð ekki síst, og þær eru (Forseti hringir.) skynsamlegar að því leyti að þær færa niður lánasöfnin og skuldbindingar sem eru óinnheimtanlegar.