140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er umhugsunarefni að forsætisráðherra vilji ekki viðurkenna að hún stýrir í raun minnihlutastjórn í landinu. Þá spyr ég: Til hvers í ósköpunum er verið að leggja í allar þessar samningaviðræður við Hreyfinguna ef svo er ekki?

Ég tek heils hugar undir það með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að hér er ekki um neitt annað að ræða en hræsni. Þetta er sýndarsamráð af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við sjáum hvernig hún hefur hagað sér þegar kemur að samráði við einstaka hópa. Látum vera samráð við okkur í stjórnarandstöðunni, sem er ekkert. Í þau fáu skipti sem reynt hefur verið að hafa samráð við okkur hefur það algjörlega verið hunsað. Sjáum samráðið sem ríkisstjórnin hefur haft við aðila vinnumarkaðarins í tengslum við stöðugleikasáttmálann o.s.frv. Það er ávallt hunsað. Það sama er hægt að segja um fiskveiðistjórnarmálin, um sáttanefndina um sjávarútveginn, sem var alveg skýr. Það átti að byggja á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og menn voru tilbúnir að ræða ákveðna þætti, eins og eðli og umfang veiðileyfagjaldsins, auðlindaákvæði í stjórnarskrá — allt voru það eðlilegir og sjálfsagðir hlutir sem allir hefðu verið fáanlegir til að ræða ef þeir fengju að koma að borðinu. Þetta var allt sýndarmennska, eintóm sýndarmennska varðandi þessa sáttanefnd eins og um svo margt annað í hjali ríkisstjórnarflokkanna endrum og sinnum um að leiða þurfi mál til lykta með samningum.

Við sjálfstæðismenn höfum ítrekað að við erum meira en reiðubúin til að fara í breytingar á stjórnarskránni. Málið snýst ekki um það, heldur um vinnubrögðin. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar með þennan verkstjóra í broddi fylkingar eru þess eðlis að sporna þarf við þeim af því að þau skaða stjórnarskrána og samfélagið.

Ég vil því geta þess í lokin (Forseti hringir.) að ég tel að ein mesta skemmdarverkastarfsemin í öllum þessum stjórnlagaráðstillögum sé á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.