140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:23]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki eftir því að hafa sagt að menn legðu fram breytingartillögu við skýrslu.

Hins vegar langar mig að benda á að spurningin sem á að bera upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni er eftirfarandi:

„Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?“

Yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga. Þá skil ég hv. þingmann þannig að hún vilji að stjórnarskráin, sem kom frá stjórnlagaþinginu, verði lögð óbreytt fyrir þjóðina. Er það réttur skilningur? (MT: … stjórnlagaráð.)

Ég taldi að þær tillögur sem komu frá stjórnlagaráði ættu að fá eðlilega, efnislega meðferð í meðförum Alþingis. Það er ekkert mál að senda þær út og fá umsagnir hinna og þessara. Það er annað mál að leggjast yfir þær því að hvort sem menn ræddu við viðkomandi eða ekki þarf að vinna úr tillögunum. Ég er þeirrar skoðunar að margar af þessum umsögnum hefðu gert að verkum að breytingar hefðu orðið á þeim tillögum sem komu frá stjórnlagaráði.

Nú er í rauninni bara verið að spyrja, eins og ég skil þetta og kannski líka af því að það stendur hérna, hvort eigi að taka tillögu stjórnlagaráðs (Gripið fram í.) og gera hana að stjórnarskrá ef fólk segir já í þessari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég var á sínum tíma reiðubúinn að ganga skrefinu lengra til að við gætum breytt (Forseti hringir.) stjórnarskránni (Forseti hringir.) en ég er ekki reiðubúinn að (Forseti hringir.) kvitta upp á hvað sem er.