140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Þar kom fram að þingmenn eru núna að fá tölvuskeyti frá aðilum sem hafa áhyggjur af því að þeir fái ekki að kjósa um nýja stjórnarskrá. Ég held að einhver misskilningur sé hér á ferð því að sú kosning sem fyrirhuguð er í október snýst ekki um að kjósa um nýja stjórnarskrá heldur er hún könnun á ákveðnum atriðum er lúta að stjórnarskránni og þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram af hálfu stjórnlagaráðs. Það er ekki verið að kjósa um samþykkt eða synjun á stjórnarskrá. Það er mikilvægt að þessu sé haldið til haga, það er einhver misskilningur á ferðinni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í fyrstu spurninguna í þessari þingsályktunartillögu en hún lýtur að því hvort menn vilji eða vilji ekki segja álit sitt á tillögum stjórnlagaráðs. Ekki er boðið upp á að fjalla um einstakar greinar en eins og fram hefur komið í ræðum þingmanna eru sumir þingmanna sammála einstökum greinum en ósammála öðrum. Eingöngu er gefinn kostur á því að segja álit sitt á því hvort leggja eigi tillögur ráðsins til grundvallar eða ekki, það er allt eða ekkert. Þetta er mikill galli því að ef hugmyndin með þessu er að mæla fylgið með tillögunum, gefur þetta ekki færi á að mæla hvaða breytingar menn vilja gera og hverjar ekki.

Á hinn bóginn er bætt við fimm spurningum sem eru að mínu viti valdar með mjög óljósum hætti. Í þeim er að finna að einhverju leyti áherslur sem hafa komið fram í allri vinnslu málsins en mörg önnur atriði hafa líka komið fram á þjóðfundinum og einnig hjá stjórnlagaráði og nefndinni sem starfaði. Mig langaði að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi út í þessa framsetningu á spurningunum og aðallega fyrstu spurningunni.