140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:59]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Eins og ágætlega kemur fram í þessu andsvari er hægt að tengja umræðu um stjórnarskrána við ýmis mál og hv. þingmaður Ásmundur Einar Daðason spyr um þetta grundvallarmál. Stutta svarið mitt við þessu er einfaldlega það að ég vil ekki með neinum hætti ganga á fullveldisrétt íslensku þjóðarinnar. Ég tel þvert á móti að meðan við viljum vera sjálfstætt ríki eigum við að verja hann með kjafti og klóm og ganga eins langt í því og við mögulega getum. Ég hef verið þeirrar skoðunar og er mjög harður á því.

Ég geri mér hins vegar ljóst að vegna ákvæða EES-samningsins og framkvæmdar þeirra er þessi spurning að verða mjög áleitin. Hún er meðal annars grunnurinn að þeirri breytingartillögu sem hv. þm. Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal hafa flutt og kemur væntanlega til afgreiðslu þegar umræðu um þetta mál lýkur. Sú spurning hljóðar þannig að gerð er tillaga um að við ákveðna tiltekna efnisgrein bætist einn töluliður sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem heimilað er að framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana?“

Úr því að þessi þingsályktunartillaga um skoðanakönnunina er komin fram er eðlilegt að viðbótartillögur séu lagðar til. En ég ítreka þá afstöðu mína að eðlilegra og skynsamlegra hefði verið á allan hátt að Alþingi hefði útfært ákvæði í þessa veru, ef meiri hluti hefði verið fyrir því, og sú útfærsla færi síðan til þjóðaratkvæðis með öðrum breytingum á stjórnarskrá. Ef spurning sem þessi fer inn í skoðanavagninn, könnunarvagninn, stendur eftir sem áður upp á Alþingi að taka afstöðu til niðurstöðunnar, móta tillöguna sem yrði síðan borin undir þjóðina.