140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það væri kostur ef stjórnarskrárákvæði væru þannig að hægt væri að framkvæma þau. Ég verð því að lýsa því hér yfir að þegar breytingartillaga hv. þingmanns kemur til atkvæða mun ég lýsa yfir stuðningi við hana vegna þess að ég held að þetta sé mikilvægt atriði og rétt að benda á það.

Hér liggur líka önnur breytingartillaga frammi, frá hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal, sem ég hyggst styðja. Hún sýnst um það að ef af þessu verður komi inn valkostir, með leyfi forseta:

„Ég vil að unnið verði að breytingum á gildandi stjórnarskrá án þess að tillaga stjórnlagaráðs liggi þar til grundvallar.“

Þau vilja spyrja fólk að því hvort það vilji yfir höfuð hafa þessa tillögu en lýsa því samt yfir að þau sé tilbúin í breytingar eða að stjórnarskrá Íslands, eins og hún er núna, verði bara óbreytt.

Mér finnst nefnilega skrýtið að lagt sé af stað í þennan leiðangur án þess að gefa fólki kost á því að segja hug sinn gagnvart núgildandi stjórnarskrá. Það er mín skoðun og ég vil spyrja hv. þingmann um afstöðu hans til þess hvort það mikilvægasta sem við þurfum að fást við núna sé að fá nýja stjórnarskrá.

Var það stjórnarskráin sem klikkaði í aðdraganda efnahagshrunsins? Það er mikið talað um þörfina á nýju lýðveldi og nýju Íslandi, en er eitthvað í stjórnarskránni sem varð til þess að við lentum í þessum ógöngum? Telur hv. þingmaður að með því einu að fá nýja stjórnarskrá (Forseti hringir.) verði hægt að tryggja endalaust sældarlíf (Forseti hringir.) í þessu góða landi?