140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að forseti gerði athugasemd. Það er hins vegar algjörlega óþolandi að ræðumenn skuli nýta sér færi sem þeir klárlega hafa hér í ræðupúltinu til að vega að þingmönnum sem ekki hafa möguleika á því að bera hönd fyrir höfuð sér nema þá að bera af sér sakir. Það er kannski eitthvað sem hv. þm. Tryggi Þór Herbertsson hefði átt að gera, að óska eftir því þegar svo alvarlega var vegið að þingmanninum.

Það er nú einu sinni þannig að við erum kannski að deila um ákveðið mál, frú forseti. Það heimilar þingmönnum samt ekki að fara fram með þessum hætti og leggja öðrum þingmönnum svona ljót orð í munn eins og hér var gert, að hafa látið það falla um samþingmenn sína að einhver sé vangefinn. Þau orð féllu ekki héðan úr ræðustól að einhver hefði verið lýstur slíkur. Það var hins vegar talað um vangetu og það er allt annað og allt annað hugtak. Ég hvet hæstv. forseta til að sjá til þess að rætt verði við umræddan þingmann um það hvernig þingmaðurinn hagaði sér bæði í þingsal og í ræðustól.