140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:00]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski vegna skilningsleysis þess er hér stendur sem ég áttaði mig ekki alveg á svarinu, hvort hv. þingmaður væri frekar fylgjandi því að heimila fullveldisafsal í stjórnarskrá eða hið gagnstæða. Hv. þingmaður kemur kannski aðeins betur inn á það í seinna andsvari sínu.

Engu að síður spyr ég vegna þeirrar breytingartillögu sem fyrir liggur um fullveldisafsalið frá hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal: Finnst hv. þingmanni ekki, í ljósi allrar umræðunnar í dag um fullveldisafsal með EES-samningnum, um ESB-umsóknina og fleira í þeim dúr, fullkomlega eðlilegt að leita álits þjóðarinnar ef menn á annað borð ætla að fara af stað með einhvern spurningavagn um einstök atriði um málefni sem tengjast stjórnarskránni? Væri ekki eðlilegt að þessi spurning fylgdi þar með, þ.e. um eitthvað sem sneri að fullveldinu og hvort þjóðin vildi styrkja fullveldi í stjórnarskrá eða hið gagnstæða?

Þrátt fyrir að hv. þingmaður sé á höfuðborgarsvæðinu langar mig síðan að spyrja hana um afstöðu hennar til breytingartillagna frá þeim sem hér stendur, hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og einstökum stjórnarliðum. Nokkrar breytingartillögur snúa að stöðu landsbyggðarinnar og hvort skerpa eigi á byggðasjónarmiðum í stjórnarskrá, t.d. sem tengist húshitun og jöfnum rétti til þjónustu. Finnst hv. þingmanni í fyrsta lagi að slíkt eigi að vera í stjórnarskrá? Og í annan stað, finnst hv. þingmanni eðlilegt að spyrja þjóðina núna í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu hvort taka eigi einhverjar slíkar tillögur inn?