140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:07]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið.

Í fyrstu spurningu í þessum spurningavagni er, með leyfi forseta:

„Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá …?“

Þetta er kannski stóra spurningin. Stjórnlagaráð hefur lagt fram drög að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá og þetta er í mínum huga eina spurningin sem ætti að vera hér, hvort þær tillögur sem fyrir liggja eigi að vera grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. Þær hljóta að eiga að vera grundvöllur að nýrri stjórnarskrá vegna þess að meiri hlutinn á Alþingi fól þeim 25 aðilum sem kosnir voru í þjóðaratkvæðagreiðslu um setu í stjórnlagaþingi — kosningarnar voru reyndar dæmdar ólögmætar — þetta verkefni og það ágæta fólk hefur skilað afurð sinni.

Ég hefði persónulega kosið að Alþingi Íslendinga hefði fjallað málefnalega um tillögurnar áður en þjóðin yrði spurð að því hvort þær ættu að liggja til grundvallar. Ég hefði því kosið aðra aðferðafræði.

Við stöndum nú frammi fyrir þessu ferli. Verði það vilji þjóðarinnar að tillögurnar eigi að liggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá held ég að skylda Alþingis eftir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sé að vinna með drögin að nýrri stjórnarskrá. Það er einfaldlega mín skoðun hvað þetta varðar.

Mér finnst allar aðrar spurningar óþarfar.