140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af því sem ég sagði í fyrra andsvari mínu vildi ég árétta það að ákvæði sem felur í sér fullveldisframsal í stjórnarskrá getur verið af ýmsum toga. Við horfum til þess að ýmsir lögfræðingar, m.a. sérfræðingar á sviði stjórnskipunarréttar, hafa mælt með því að slíkt ákvæði verði sett í stjórnarskrá. Það er fyrst og fremst til þess að hægt sé að framselja afmarkað vald eða vald á tilteknu, afmörkuðu, vel skilgreindu sviði til alþjóðlegra stofnana sem uppfylla tiltekin skilyrði líka.

Það er mikið álitamál hvort slíkt ákvæði, sem væri sniðið að því að framselja tiltekið regluvald til Evrópustofnunar á sviði flugumferðarmála eða einhvers þess háttar, það er hægt að orða ákvæði sem heimilar slíkt framsal eða framsal til einhverra tiltekinna stofnana sem tengjast Schengen-samkomulaginu, mundi heimila það sem við getum kallað heildsöluframsal fullveldis til alþjóðlegra samtaka eins og aðild að Evrópusambandinu væri tvímælalaust.

Ég legg áherslu á það að jafnvel þótt sumir telji að í stjórnarskrá eigi að vera fyrir hendi ákvæði sem heimilar þröngt afmarkað framsal tiltekins valds á tilteknu sviði er ekki þar með sagt að í slíku ákvæði þurfi að felast heimild til heildsöluframsals eins og gerist við aðildarsamning að ESB.