140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það sem hann var að tala um er í takt við það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sagði, þ.e. að verið væri að þynna út stjórnarskrána með því að setja þar fram alls konar útópíu eða framtíðarsýn, framtíðarland, einhvers konar himnaríki, lofa því. Það sem menn eru að segja þarna um forsetann er í raun svipað og stendur í núverandi stjórnarskrá og ég hef gert kannski mesta athugasemd við. Í 15. gr. segir:

„Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn.“ — Þar með forsætisráðherra.

Þetta er náttúrlega algerlega tómt ákvæði því að í 13. gr. segir að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt. Þarna lendir þetta í hring, hann skipar ráðherrann og ráðherrann framkvæmir vald hans.

Eftir kosningar liggja valdahlutföllin oft mjög klár þannig að í raun er ekki um neitt annað að ræða en að einhverjir tveir flokkar vinni saman og þá getur forseti ekkert um það sagt.

Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að Alþingi ræði ítarlega hvað gerist ef stefnir í stjórnarkreppu. Stjórnarkreppa er mjög slæm. Sú lausn sem Grikkir hafa er að mínu mati alls ekki góð, að fara í kosningar kannski á viðkvæmasta tíma vantrausts og spennu.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji það ekki umræðunnar virði að fara í gegnum það hvernig forsætisráðherra og ný ríkisstjórn verði skipuð þegar vandi steðjar að og þegar illa gengur að samræma ólík sjónarmið.