140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi fyrst segja að ég fagna því auðvitað að hv. þm. Lúðvík Geirsson er tilbúinn að koma í umræðu um þessi mál vegna þess að við höfum saknað þess svolítið í þessum umræðum að fá ekki málefnalegt innlegg af hálfu þingmanna stjórnarflokkanna eins og vissulega var hér um að ræða. Við hv. þm. Lúðvík Geirsson erum áreiðanlega ósammála um margt af þessu en ég held hins vegar að það sé líklegra til árangurs að við ræðum saman um þessi mál frekar en að annar reyni að kjafta hinn í kaf og hinn að þegja málið í hel, ef svo má að orði komast, þannig að ég held að samræðurnar hljóti að skila okkur eitthvert áleiðis í þessu og fagna þess vegna þessu innleggi hv. þingmanns.

Varðandi spurningarnar sem meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tíndi til er vissulega um að ræða ákveðin álitamál sem upp komu í störfum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Sama má raunar segja um ýmis önnur mál. Þar nefni ég forsetaembættið. Við hv. þm. Ólöf Nordal lögðum fram tvær breytingartillögur sem snúa að forsetaembættinu, annars vegar um málskotsréttinn og hins vegar um afskipti forseta af stjórnarmyndun. Við töldum, sérstaklega í ljósi þess að umræðan um stöðu forsetaembættisins er mikil, að rétt væri að hafa slíkar spurningar með ef á annað borð væri farið út í þessa könnun, en ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það að afstaða okkar er sú að verið sé að fara með þessa þjóðaratkvæðagreiðslu inn í málið á kolvitlausum tíma, löngu áður en það er tímabært, áður en búið er að fullklára tillögurnar, áður en búið er að vinna málið til enda, ef svo má segja.

En varðandi aftur spurninguna um fullveldið held ég að hún eigi líka fullt erindi inn í tillögurnar vegna þess að þar er ótvírætt um að ræða eitt stærsta pólitíska álitaefni okkar tíma hvort og hversu mikið (Forseti hringir.) á að vera heimilt að framselja fullveldið til alþjóðlegra stofnana. Það væri mjög einkennilegt ef farið væri í slíka könnun af þessu tagi og slík spurning væri ekki með.