140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:36]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé hárrétt greining hjá hv. þingmanni. Þetta mál hefur nú eftir marga mánuði rekið á fjörur Alþingis vegna þess að ríkisstjórnin trúði því að hún gæti keypt Hreyfinguna til stuðnings við sig með því að taka þetta mál á dagskrá. Ég tel að mjög margir stjórnarþingmenn mundu vilja sjá allt aðra málsmeðferð en þessa. Nú liggur ljóst fyrir að ríkisstjórnin getur ekki samið við Hreyfinguna, ríkisstjórnin er búin að átta sig á því að það er ómögulegt að stjórna ríki eftir þeim barnalegu hugmyndum um lífið sem Hreyfingin hefur. Núna eftir að það liggur fyrir og slitnað hefur upp úr þeim viðræðum held ég að það væri mannsbragur á því hjá ríkisstjórninni að draga þetta mál einfaldlega til baka og taka það til eðlilegrar málsmeðferðar. Eins og staðið hefur verið að málinu og er nú staðið að því er ljóst að það mun ekki leiða til sátta eða niðurstöðu sem fólk getur almennt sætt sig við. Stjórnarskrá er ekki breytt þannig að henni sé rutt í gegnum þing með einföldum meiri hluta með lánsatkvæðum frá stjórnarandstöðunni.