140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í umræðu áðan um störf þingsins fyrr á þessum fundi sagði hv. þm. Mörður Árnason að Guðfríður Lilja skildi öll atriði, vafaatriði varðandi umsókn að Evrópusambandinu, en aðrir ekki. Nú er það svo að það hefur legið fyrir alla tíð síðan við sóttum um aðild að Evrópusambandinu, reyndar óskilyrt og það var dálítið merkilegt, hverjar reglur Evrópusambandsins eru um aðildarviðræður eða aðildaraðlögun nýrra ríkja. Það hefur alltaf legið fyrir. Þetta liggur nákvæmlega fyrir og það liggur líka nákvæmlega fyrir hvað felst í því að ganga í Evrópusambandið. Það er að lúta ákveðnum reglum sem Evrópusambandið hefur sett og fallast á þær. Það er alveg fráleit hugsun að Evrópusambandið fari að breyta sínum reglum fyrir Ísland. Evrópusambandið er ekki að ganga í Ísland. Ísland er að ganga í Evrópusambandið. Þetta liggur allt fyrir.

Ég felst alveg á skoðun hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur að þetta liggi allt fyrir. Þeir sem ekki sjá það vilja ekki sjá það. Þeir hv. þingmenn, sérstaklega Samfylkingarinnar, sem þykjast sjá eitthvað óljóst í þessum aðildarviðræðum vilja ekki sjá það sem er alveg kristaltært.

Varðandi hitt málið með þjóðaratkvæðagreiðslu um órædd mál, þá er það mál sem við ræðum hér svoleiðis gjörsamlega órætt. Menn setja meira að segja ofan í við mig sem hef farið efnislega í gegnum einstök atriði, það þykir bara slæmt að kjósendur sem eiga að fara að greiða atkvæði um þetta plagg viti hvað þeir eiga að greiða atkvæði um. Það þykir bara ótækt. Þetta á bara að fara til þjóðarinnar, hún á að samþykkja einhvern anda og síðan ætla menn að setjast niður og semja (Forseti hringir.) stjórnarskrá.