140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:43]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áður greint frá því í umræðum um IPA-styrkina, eða aðlögunarstyrkina, að Evrópusambandinu að ég hafnaði því sem ráðherra að stofnanir sem heyrðu undir ráðuneytið tækju þátt í að sækja um þessa aðlögunarstyrki. Það var þeim gert alveg ljóst. Þegar upp kom síðan eitt tilvik þar sem stofnun með sjálfstæða stjórn var komin í vegferð að sækja um styrki var því einmitt hafnað af stjórninni, en fjármála- og utanríkisráðuneytið höfðu beitt sér fyrir því. Það er algjörlega ljóst að ég hef hafnað því að við tækjum við einhvers konar mútufé til að aðlaga íslenska stjórnsýslu og ánetja hana Evrópusambandinu.

Ég viðurkenni alveg að um þetta var ágreiningur í ríkisstjórn. Það var líka ágreiningur um þessa styrki milli mín og annarra ráðherra, bæði forsætisráðherra og þáverandi fjármálaráðherra. Ég benti á að ekki væru til heimildir af hálfu Alþingis til að taka við slíkum styrkjum og ráðuneyti eða ráðherrar gætu ekki sótt um styrki sem Alþingi hefði ekki veitt neina heimild fyrir. Það kom líka á daginn og þess vegna er þetta mál að koma hingað inn, bæði þingsályktunartillaga um heimild til að mega ganga til samninga um þessa aðlögunarstyrki og einnig frumvarp um skattalega meðferð þeirra, ríflega einu og hálfu ári eftir að farið var á fullt að sækja um eða hvetja aðila og stofnanir til þess að sækja um þessa styrki. Það var að mínu viti algjör lögleysa, (Forseti hringir.) enda hélt ég því fram.

Ég ítreka að ég hef staðið gegn þessu. Aðrir hafa (Forseti hringir.) beygt kné sín fyrir Evrópusambandinu í þessum málum. Það er ekki í samræmi við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.