140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir að það er nauðsynlegt og mundi skýra málið talsvert betur ef það stæði meira í nefndarálitinu varðandi þennan þátt.

Nú situr hv. þingmaður í fjárlaganefnd og í 1. umr. um þetta mál var sagt að mikilvægt væri að í utanríkismálanefnd sem fékk málið til umfjöllunar, þ.e. þingsályktunartillöguna en efnahags- og viðskiptanefnd frumvarpið sem við erum að ræða hér, gerðu menn sér grein fyrir þeim fjárhæðum sem um væri að tefla í frumvarpinu, þ.e. hversu háar fjárhæðir væri verið að véla um sem væru skattaívilnanir af ýmsu tagi og hvaða peningar kæmu inn í samfélagið og hvaða peningar yrðu gefnir eftir af ríkisvaldinu. Af lestri nefndarálitanna, annars vegar frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og hins vegar frá utanríkismálanefnd, er ekki að sjá að slík vinna hafi farið fram, það er ekki að sjá að menn hafi lagst mikið í pælingar á þessu. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort fjárlaganefnd hafi á einhverjum tímapunkti fjallað um þetta þar sem þarna er verið að gefa eftir tekjur sem ellegar hefðu komið inn í ríkissjóð.

Það er sérstakt til þess að hugsa líka varðandi vinnulagið við þetta að farið skyldi í gegnum fjárlög með ákveðin verkefni sem við horfumst síðan í augu við að ekkert verður af eða tekin verða úr ríkissjóði ef þessu verður hafnað. Hvað finnst hv. þingmanni um slíka fjármálastjórn? Er þetta liður í hinni nýju öguðu hagstjórn þar sem menn ætla að fara varlega og sparlega með alla hluti og velta hverri krónu fyrir sér og eyða ekki um efni fram? Hvaða álit hefur hv. þingmaður á þess konar hagstjórn sem hér er við lýði?