140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:24]
Horfa

Atli Gíslason (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég er stuðningsmaður þjóðaratkvæðagreiðslna. En það eru nokkur grundvallarmál sem kalla á breiða samstöðu og sátt, helst einhug, og það er brýn nauðsyn á því. Þar trónir stjórnarskráin efst, breytingar á henni og málsmeðferð, þingsköp sem við eigum að starfa eftir og skipan Stjórnarráðsins svo ég nefni þrjú helstu dæmin. Þessa skoðun rökstuddi hv. formaður Vinstri grænna ítarlega meðan hann var í stjórnarandstöðu. Ég studdi þann rökstuðning og styð enn.

Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis er í sömu veru. Rannsóknarnefnd Alþingis kallar á festu og stöðugleika. Því miður hefur það gerst að ekki hefur verið leitað eftir þessari brýnu og nauðsynlegu samstöðu þingmanna og stjórnmálaflokka. Þetta er enn einn áfellisdómur yfir stjórnmálamenningu okkar. (VigH: Rétt.) Nóg er samt komið.