140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku var kynnt kosningastefnuskrá Samfylkingar og þeirra flokka sem hyggjast styðja hana á næsta kjörtímabili, flokka og flokksbrota. Það er sérstakt umræðuefni að ræða það hvernig ríkisstjórnin hefur keypt sér stuðning við stjórnarandstöðuþingmenn, flokka og flokksbrot, en ég ætla að geyma það.

Minnst tvisvar eða þrisvar áður hafa slíkar fjárfestingarstefnur og framkvæmdir verið kynntar í samstarfi við samtök á vinnumarkaði og það hefur allt verið svikið. Það er alveg rétt að hér er meiri hagvöxtur en víðast hvar annars staðar í Evrópu og hér hefur margt gengið betur en víðast hvar annars staðar í Evrópu og það er ekkert skrýtið. Fyrir utan þau tækifæri og þær ástæður sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndi, varðandi neyðarlögin og íslensku krónuna, þá eru tækifæri alls staðar, hreint úti um allt, og það er alveg ótrúlegt hvað ríkisstjórnin hefur klúðrað því að nýta þau tækifæri á síðustu þremur árum þannig að biðstaða hefur verið í atvinnulífinu allan þennan tíma.

Varðandi verkefnin sjálf þá eru þau út af fyrir sig mjög jákvæð. Gagnrýnin snýst að því hvernig eigi að fjármagna þetta. Hér hefur meðal annars verið sagt að það eigi að gerast með arðgreiðslum og eignasölu í bönkum. Ætlar ríkisstjórnin að krefjast þess að arður verði greiddur út úr bönkunum og 90% af honum fari til erlendra vogunarsjóða sem enginn veit neitt um? Er tillagan sem kom frá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni á þann veg að taka arð út úr bönkunum til að setja inn í íslenskt efnahagslíf og í leiðinni fari 90% af arðgreiðslunum til erlendra vogunarsjóða, er það leiðin til að byggja upp íslenskt atvinnulíf? Ég held ekki.

Margar umsagnir hafa borist um veiðigjöldin. Ég ætla aðeins að vitna, með leyfi forseta, í umsögn ASÍ:

„Helstu veikleikar frumvarpanna eru að verið er að veikja rekstrargrunn greinarinnar. […] ASÍ telur að of langt sé gengið í frumvarpinu í sértækum aðgerðum sem veikja rekstrargrundvöllinn.“

ASÍ fjallar síðan um tekjur ríkisins af sérstaka veiðigjaldinu sem það telur að séu verulega ofmetnar og byggist á því að einsýnt sé að það samrýmist ekki stöðugleika, hvorki í atvinnulífinu né í verðlagsmálum almennt, að viðhalda svo veiku gengi. Og ég spyr: Ætlar ríkisstjórnin að vinna að því áfram að viðhalda lágu gengi?

Niðurstaða ASÍ er, með leyfi forseta:

„Til lengri tíma litið má búast við að veiðigjaldið skili 7–8 millj. kr. í ríkissjóð miðað við að gengi íslensku krónunnar sé eðlilegt.“

Það er hin raunsanna mynd sem við eigum að byggja á atvinnustefnu næstu ára að veiðigjaldið sé hóflegt og það sé nýtanlegt í atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Um það eru allir sammála. En erum við sammála um það að leggja tíu sinnum hærri álögur á landsbyggðina en er við núverandi veiðigjald og setja síðan smámola út í einhverjum samgöngubótum? Um það erum við ekki sammála. Þetta er mjög veikur grunnur fyrir fjárfestingarstefnunni. Það verður að segjast eins og er.

Varðandi rammaáætlunina þá hefur það komið fram, tengt umsögn Gamma, að hér sé að minnsta kosti 4–6% minni hagvöxtur en gæti hafa verið á árabilinu 2012–2016 ef niðurstaðan verður eins og kynnt hefur verið af ráðherrum ríkisstjórnarinnar og 270 milljörðum minni fjárfesting og afleidd áhrif í landinu. Varðandi umsögn ASÍ um sama mál, eins og komið hefur fram mættu þeir á fund atvinnuveganefndar í morgun, þá gera þeir alvarlegar athugasemdir við þetta.

En það er fleira og maður spyr: Hvar er fjárfestingarstefna ríkisins varðandi rammaáætlunina? Hvar er hún? Hún virðist ekki vera til. Hún kemur alla vega ekki fram hér. Varðandi það atvinnuleysi sem er í landinu þá spyr maður sig: Hvar er atvinnustefna ríkisstjórnarinnar og hvar hefur hún verið?

Á síðustu árum hefur orðið milli 200 og 300 milljarða tjón, þar af um 100 milljarðar sem hafa farið til atvinnuleysisbóta. Atvinnuleysi er viðvarandi og það er ótrúlega hátt í sögulegu samhengi og þó það færi lækkandi þá höfum við misst af tækifærinu til að vera með miklu betri stöðu en raun ber vitni.

Það eru þó tveir kostir sem enn hafa ekki verið ræddir í þessari fjárfestingarstefnu. Varðandi menntunina — og ég tek undir það, það er kannski þar sem ríkisstjórnin hefur staðið sig einna skást, bæði í að verja niðurskurð og að fá 1.000 manns á atvinnuleysisskrá til að fara í skóla, það er jákvætt. En hvað með skuldir heimila? Hvar hefðu fjárfestingarmöguleikar almennings í landinu verið ef ríkisstjórnin hefði farið í almenna leiðréttingu og tekið á verðtryggingunni eins og við framsóknarmenn höfum ítrekað lagt til og mál liggja fyrir um í þinginu? Hvar er til að mynda fjárfestingarstefna ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálum sem stendur að þeir eigi að auka um 10%? Ekki orð um það hér.

Staðreyndin er sú að við þurfum að auka útflutningstekjur þjóðarinnar um 60–80 milljarða umfram það sem nú er í plús. Þá getum við farið að fjármagna alvörufjárfestingar, bæði í velferðarmálum, atvinnumálum, samgöngumálum og öðrum góðum málum. Því miður er tíma mínum lokið, frú forseti, en ég gæti talað daginn inn og daginn út um þau mistök ríkisstjórnarinnar að hafa ekki nýtt þau tækifæri sem fyrir hendi eru.